21.6.2012 22:50

Fimmtudagur 21. 06. 12

Flugum í dag heim með Icelandair frá München. Allt var á áætlun. Hins vegar verð ég að draga í land varðandi hrifningu af flugvellinum í München. Þar til í dag hafði ég aðeins farið um Terminal 2, þann hluta vallarins sem Lufthansa hefur til afnota. Þar er allt nýtt og með miklum glæsibrag.

Hið sama verður ekki sagt um Terminal 1 sem er til afnota fyrir önnur flugfélög en Lufthansa. Þar er allt með frekar slitnu og gömlu yfirbragði. Langar biðraðir eru við innritun, öryggishlið frumstætt og einnig aðstaðan í biðsalnum fyrir brottför.

Lufthansa hefur þann hátt á að senda þeim sem bókað hafa flug á netinu tölvubréf eða sms-boð 23 tímum fyrir brottför og segja þeim að frá og með þeim tíma geti þeir innritað sig í flugið og síðan er bent á að hvaða innritunarhliði ber að fara á viðkomandi flugvelli til að skila af sér farangri og fá hann innritaðan.

Unnt er að netinnrita sig hjá Icelandair en ekki á öllum flugvöllum. Í Leifsstöð geta þeir sem hafa innritað sig á netinu og prentað úr brottfararspjald notað það til að nálgast innritunarmiða á ferðatöskur og síðan farið með þær í innritunarhliðið þar sem tekið er við innrituðum töskum. Hjá Lufthansa setja starfsmenn flugfélagsins innritunarmiða á töskurnar.

Þjóðverjar glíma við vanda á flugvöllum þriggja stærstu borga sinna. Nýr flugvöllur átti að koma til sögunnar í Berlín í vor en það frestast um næstum ár að hann verði nothæfur. Pólitískur ágreiningur um ábyrgð á þeim töfum magnast.

Í Frankfurt hafa verkföll truflað umferð um flugvöllinn og deilt er um næturflug. Í München er ágreiningur nýja flugbraut.

Miðvikudaginn 13. júní ræddi ég við Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, á ÍNN um utanríkisstefnu Kínverja og Grímsstaði á Fjöllum. Má sjá viðtalið hér.