10.6.2012 20:00

Sunnudagur 10. 06. 12

Í morgun gekk ég í miðbæinn í litla ítalska þorpinu og sá að tvær megingötur voru þaktar rósum. Blasti við að þetta væri í tilefni brúðkaups enda lá blómastígurinn að kirkjunni. Þegar þangað kom var messu að ljúka en kirkjan eitt blómahaf að innan. Taldi ég víst að nú kæmu brúðhjónin á vettvang. Svo var ekki því að kirkjugestir stigu út með helgigripi og gengu syngjandi og flytjandi bænir með prestinum nokkurn spöl eftir blómum prýddum götum að minnismerki um fallna hermenn. Þar var helgistund áður en gengið var aftur til kirkju. Hinn 10. júní 1940 hófu Ítalir þátttöku í síðari heimsstyrjöldinni og réðust inn í Frakkland. Ég hef aldrei séð neinar  blómaskreytingar í líkingu við þær sem þarna voru.

Ps.fáfræði opinberuð. Glöggur lesandi síðu minnar í Þýsklandi sendi mér eftirfarandi mánudaginn 11. júní:

Þessi blómadýrð á götum ítalska þorpsins á sér mjög einfalda skýringu: sú hátíð kaþólskra, sem helguð er líkama drottins (Corpus Christi á latínu, Fronleichnam á þýsku) og haldin er á 60. degi eftir páskadag (þ.e. ávallt á fimmtudegi), er á Ítalíu færð yfir á sunnudaginn næsta á eftir (og heitir þar Corpus Domini). Þetta hefur sem sagt ekkert með þátttöku Ítala í seinni heimsstyrjöldinni að gera.

Ég þakka þessa góðu leiðréttingu og fræðslu. Mér þótti einnig sú ályktun undarleg að fólk kæmi saman og fagnaði með blómum vegna upphafs styrjaldar.