17.6.2012 21:10

Sunnudagur 17. 06. 12

Um borgina Lucca er sagt að innan fornra múra hennar hafi íbúunum tekist best allra að varðveita fornt yfirbragð ítalskra bæja. Ferð til Lucca á sunnudegi er skemmtilegri en ella vegna þess að þá er hluta gamalla gatna breytt í antík-markað. Þúsundir manna nutu skuggans og andvarans í þröngum götum Lucca í rúmlega 30 stiga hita í dag.

Ég skrifaði pistil í tilefni þess að í dag flutti Jóhanna Sigurðardóttir síðustu þjóðhátíðarræðu sína. Pistilinn má lesa hér.

Grísku flokkarnir sem vilja náið samstarf við evru-ríkin geta myndað meirihluta eftir þingkosningarnar þar í dag. Margir leiðtogar evru-ríkjanna anda léttar vegna þessa. Róðurinn til bjargar evrunni verður erfiður áfram og framtíð Grikkja er áfram svört.

Sósíalistar fá hreinan meirihluta á franska þinginu eftir kosningarnar í dag. Það lofar ekki góðu fyrir efnahag Frakka, Líklegt er að lánshæfiseinkunnin lækki fyrr en seinna. Andstæðingar sósíalista eiga hins vegar verk að vinna í eigin herbúðum.