17.6.2012

Síðasta þjóðhátíðarræða Jóhönnu á Austurvelli

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flutti þjóðhátíðarávarp í síðasta sinn við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli í dag, 17. júní 2012. Hún verður ekki forsætisráðherra eftir kosningar hvort sem þær verða í haust eða á næsta. Raunar er undarlegt að þingflokkur Samfylkingarinnar skuli þoli Jóhönnu svona lengi í forystu. Minnir það aðeins á langlundargeðið sem henni var sýnt sumarið 1994 þegar hún fékk að sitja í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fram yfir 50 ára afmæli lýðveldisins og hátíðarhöldin á Þingvöllum af því tilefni. Að þeim loknum hvarf hún úr ríkisstjórn og stofnaði Þjóðvaka til höfuð fyrrverandi samstarfsmönnum sínum í Alþýðuflokknum. Þjóðvaki og Alþýðuflokkurinn runnu síðan saman í eitt undir merkjum Samfylkingarinnar fyrir kosningar 1999 en þá vildi Steingrímur J. Sigfússon ekki fylgja félögum sínum í Alþýðubandalaginu inn í Samfylkinguna og stofnaði vinstri-græna.

Þetta sundrungar-tvíeyki hefur leitt ríkisstjórn Íslands síðan 1. febrúar 2009. Í ræðu sinni á Austurvelli sagði Jóhanna að hatrömm átök ríktu í heimi stjórnmálanna, hatrammari en hún hefði áður upplifað á sínum 34 ára ferli. Afleiðingarnar væru gríðarlegt vantraust almennings á helstu stofnunum samfélagsins og hún bætti við:

„Ábyrgðina berum við, kjörnir fulltrúar þjóðarinnar og enn sem komið er hefur okkur að miklu leyti mistekist í þessu mikilvæga verkefni, að endurvinna traust þjóðarinnar. Þetta þykir mér mjög miður. Úr þessu verðum við að bæta á næstu misserum ef ekki á illa að fara.“

Þegar litið er yfir stjórnmálaferil Jóhönnu og Steingríms J. þarf engan að undra að ástandið í heimi stjórnmálanna sé eins og hún sjálf lýsir. Jóhanna hefur aldrei komið fram sem sáttasemjari á stjórnmálavettvangi heldur sem upphafsmaður deilna og hatramms ágreinings. Hún hefur því enga hæfileika til að gegna embætti forsætisráðherra og var valin til þess svo að friður yrði fyrir henni innan Samfylkingarinnar, hún hefði aldrei unnt sér hvíldar við gagnrýni í garð þess sem hefði verið valin til að leiða flokkinn sæti hún ekki sjálf uppi með ábyrgðina.

Steingrímur J. Sigfússon er ekki heldur maður sátta. Eftir að hann varð ráðherra hefur einnig komið í ljós að hann stendur ekki við það sem lofaði kjósendum. Hann var á móti ESB-aðild en stóð að því að sækja um hana. Hann var á móti því að samið yrði um Icesave en hefur staðið að þremur misheppnuðum samningum um málið. Hann var á móti samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en talar nú eins og hann hefði getað orðið ríkisfjármálastjóri í umboði hans í Grikklandi.

Jóhanna og Steingrímur J. varpa með stjórnmálastörfum sínum skugga á störf þeirra sem sinntu landsstjórninni áður en þau settust saman í hana. Skemmdarstarfsemi þeirra í og á stjórnarráðinu verður lengi minnst. Hið einkennilega er að þeim hefur tekist að draga nýja kynslóð stjórnmálamanna með sér út í svaðið og gert hana meðábyrga. Aldrei hefur verið meiri endurnýjun á alþingi á skemmri tíma en frá 2009. Það er þessu fólki sem Jóhanna er að lýsa í síðasta ávarpinu sem hún fær að flytja við styttu  Jóns Sigurðssonar.

Jóhanna minntist þess í ávarpi sínu að hún hefði setið 34 ár á þingi. Þingstörfin um þessar mundir benda til þess að hún hafi ekkert lært af forverum sínum um hvernig ljúka eigi störfum þings vor hvert á friðsaman og skynsamlegan hátt. Í því efni ræður vilji forsætisráðherra að lokum því að stjórnarmeirihlutinn lýtur honum á meðan hann veitir ráðherranum traust. Jóhanna er ekki verð þessa trausts en situr samt og því eru mál í slíku óefni að sjálf man hún ekki eftir öðru eins í 34.

Jóhanna og Steingrímur J. eru vegna aldurs og fyrri starfa fulltrúar tíma á alþingi þar sem önnur vinnubrögð tíðkuðust en þau hafa sjálf innleitt eftir að þeim var treyst fyrir meiri ábyrgð en þau hafa burði til að axla. Jóhanna hverfur senn af þingi, hvað verður um Steingrím J. er óljósara. Vonandi tekst þeim sem taka við stjórn þings og þjóðar af þeim að snúa klukkunni til baka, taka að nýju upp þá stjórnarhætti sem sköpuðu stjórnmálamönnum virðingu og traust.

Ólafur Ragnar Grímsson starfaði með Jóhönnu og Steingrími J. á vinstri væng stjórnmálanna. Hann sagði hins vegar skilið við beina stjórnmálaþátttöku með framboði sínu til forseta snemma árs 1996. Þá þegar kom í ljós hve slyngur hann er við að breikka eigin ímynd með litlum hlutum sem verða stærri þegar frá þeim er sagt eins og þegar hann sótti fund Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs í kosningabaráttunni til að sýna að hann væri ekki fastur í and-NATO kreddum Alþýðubandalagsins (nú vinstri-grænna).

Ólafur Ragnar lagði fyrrverandi samstarfsfólki sínu í stjórnmálum lið í fjölmiðlamálinu fyrri hluta árs 2004 og tók slaginn fyrir það við Davíð Oddsson forsætisráðherra. Ólafur Ragnar skapaði með afstöðu sinni Baugsmönnum og öðrum bíræfnum viðskiptamönnum óhæfilegt svigrúm sem þeir misnotuðu eins og lesa má í skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis.

Ólafur Ragnar hafði ekki fyrir því sem forseti undir lok janúar 2009 að kanna hvort mynda mætti meirihlutastjórn á alþingi þegar Samfylkingin krafðist þess að Geir H. Haarde viki sem forsætisráðherra. Hann tók Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á orðinu og gerði Jóhönnu að forsætisráðherra.

Hafi samband þeirra Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar verið stirt keyrði um þverbak í samskiptum forseta og forsætisráðherra eftir að Jóhanna settist í Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg. Frekja hennar hefur gengið fram af Ólafi Ragnari eins og kemur fram í orðsendingaskiptum milli embætta þeirra út af kröfu Jóhönnu um að Ólafur Ragnar setji sér siðareglur.

Það er eftir öðru á stjórnmálaferli Jóhönnu að hún telji það sér til framdráttar að rífast um slíkar reglur við forseta Íslands eða telja sig öðrum fremri til dæmis í  jafnréttismálum. Í hvorugum málaflokknum hefur hún úr háum söðli að detta. Þetta má sanna með málaferlunum um launamál Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og vegna höfnunar á Önnu Kristínu Ólafsdóttur  í starf í forsætisráðuneytinu. Málaferlin eiga rætur að rekja annars vegar til siðleysis við skipun í opinbert embætti og hins vegar til brota á jafnréttislögum.

Jóhanna lítur yfir 34 ára stjórnmálaferil og kemst að þeirri niðurstöðu að staða stjórnmálanna sé verri en nokkru sinni áður á þeim árum sem hún þekkir af eigin raun. Tími hennar í stjórnmálum er sem betur fer brátt á enda runninn. Hún ætlaði einnig að binda enda á forsetaferil Ólafs Ragnars sem hefur slegið sér upp á því undafarin misseri að snúast gegn ríkisstjórninni sem hann skapaði 1. febrúar 2009.

Ólafur Ragnar áttar sig á því að hann nær ekki endurkjöri nema með því að skipta um stuðningsfólk, þess vegna er hann helsti stjórnarandstæðingurinn um þessar mundir við hlið Davíðs Oddssonar á Morgunblaðinu. „Politics make strange bedfellows“ og sannast það enn á ný í forsetakosningunum 30. júní 2012.

Ég sagði hér á síðunni þegar fréttir bárust af framboði Þóru Arnórsdóttur til forseta að hún mundi ekki hafa roð við Ólafi Ragnari í kosningabaráttunni. Það hefur sannast. Þóra er af kynslóðinni sem kemur inn í stjórnmálin þegar fjarar undan Jóhönnu og Steingrími J., hún hélt að Ólafur Ragnar væri á sama báti og þau. Hann er það hins vegar alls ekki og sigrar ekki aðeins Þóru og aðra frambjóðendur í forsetaslagnum heldur einnig Jóhönnu, Steingrím J. og  ESB-aðildarsinna.

Hættan í þessu öllu saman fyrir íslensk stjórnmál er ekki að  Jóhanna og Steingrímur J. fái á baukinn í forsetakosningunum, þau eiga það skilið. Hættan er að Ólafur Ragnar gangi enn einu sinni of langt í forsetaverkum.

Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, skrifar furðugrein í nýjasta hefti Skírnis, þar sem hann ýtir undir valdafíknina í Ólafi Ragnari. Endurkjörinn skyldi hann þó ekki bola þeim Jóhönnu og Steingrími J. hreinlega frá völdum?  Hann segist hafa haft utanþingsstjórn á takteinum fyrir áramót 2008 þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde sat. Staða hennar á þingi var hátíð á móts við stöðu ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. Hitt er þó eins líklegt að Ólafur Ragnar skipti enn einu sinni um stuðningsmannahóp eftir endurkjörið með því að halla sér að hinni ömurlegu vinstri stjórn. Hann er til alls líklegur eins og dæmin sanna.

Dapurlegt er fyrir nýja formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að stíga fyrstu skref í leiðtogastörfum við þær aðstæður sem hér er lýst. Þeir hafa mikið verk að vinna til að sannfæra þjóðina um hve illa hefur verið að málum staðið og nauðsynlegt sé að gjörbreyta um stjórnarhætti. Hreingerning þeirra þarf ekki síður en innan stjórnarflokkanna að hefjast á heimavelli.