18.6.2012 17:20

Mánudagur 18. 06. 12.

Á Pressunni má í dag lesa að breytingar hafi orðið hjá DV ehf, sem rekur dagblaðið DV og vefmiðil með sama nafni. Lilja Skaftadóttir, sem var í framboði fyrir Borgarahreyfinguna 2009, hefur látið af stjórnarformennsku í félaginu og Ólafur M. Magnússon tekið. Hann hefur löngum verið kenndur við Sól í Hvalfirði og síðan Mjólku. Þá segir Pressan að Lilja sé útgáfustjóri vefritsins Smugunnar, sem er málgagn vinstri-grænna. Lilja á hlut þar eins og í DV. Hún ætlar ekki að selja DV-hlutinn (26,9%), næstur henni er Reynir Traustason, ritstjóri DV, með 24,7% hlut, samtals eiga þau því 51,6% í DV ehf. Ólafur M. á innan við 1% í félaginu að sögn Pressunnar.

Persónulegar ástæður eru fyrir því að Lilja segir sig frá formennsku í DV ehf. að sögn Pressunnar en þar er haft eftir Lilju:

„Hvað varðar Smuguna þá fóru Björg Eva Erlendsdóttir og Hlynur Hallsson í stjórn RÚV og ég sem almennur stjórnarmaður varð að taka við stjórninni. Það mun þó breytast á næstu dögum eða eftir aðalfund.“

Vissulega eru tíðindi að Lilja Skaftadóttir dragi sig frá daglegri stjórn íslenskra fjölmiðla. Hún lýsti háleitum markmiðum í þeirra þágu meðal annars í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu. Varla verður með sanni sagt að draumar hennar um þau markmið hafi ræst á DV en samt ætlar hún að halda áfram að standa að baki útgáfunni.

Hitt er síðan athyglisvert að tómarúm hafi skapast við stjórn Smugunnar af því að Björg Eva og Hlynur tóku að sér að stjórna RÚV í umboði VG. Ekki heyrist hljóð úr horni starfsmanna RÚV vegna þessa og er annar háttur á viðhorfi þeirra til þessara pólitísku fulltrúa en áður hefur verið. Hvað veldur?