8.6.2012 22:50

Föstudagur 08. 06. 12

Heimsótti í dag  Cinque Terre klettóttan hluta ítölsku rivierunnar í Liguria-héraði fyrir norðan Toscana. Þetta eru fimm lítil þorp fyrir norðan La Spezia, þau heita Monterosso al Mare, Venazza, Corniglia, Manarola og Riomaggiore.

Strandlengjan með þorpunum fimm og hlíðarnar í kring hafa verið skráð á heimsminjaskrá UNESCO.

Hinn 25. október 2011 féllu aurskriður á þorpin fimm en tjónið vegna þeirra varð mest í Venazza og þar er enn unnið að endurreisn húsa eftir hamfarirnar.

Þorpin fimm eru geysivinsæll áfangastaður ferðamanna. Unnt er að ferðast á milli þeirra sjóleiðis, í lest eða fótgangandi. Í dag viðraði ekki til sjóferða, sum okkar tóku lestina í báðar áttir, aðrir gengu aðra leiðina og tóku lest til baka.