28.6.2012 22:10

Fimmtudagur 28. 06. 12

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Steingrímur J.  Sigfússon, þáv. fjármálaráðherra, héldu þannig á viðskiptum við kaup og sölu á Sjóvá að skattgreiðendur sátu uppi með um 4 milljarða króna reikning.

Nú hefur Steingrímur J. beitt sér fyrir því sem sjávarútvegsráðherra að veikja og beinlínis grafa undan rekstri útgerðarfyrirtækja. Í dag bárust fréttir um að Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefði rekið 31 starfsmann og ætlaði að selja nýjasta skipið sitt vegna ráðstafana gegn sjávarútveginum að frumkvæði ríkisstjórnarinnar og að tillögu Steingríms J.

Þegar fréttir berast um þetta kemur Steingrímur J. fram í fjölmiðlum og segir að það sé fiskur undir steini hjá þeim í Eyjum, þeir séu í pólitískum leik (kannski til heimabrúks eins og óvinir Steingríms J. í ESB?). Það er ekkert að marka það sem forstjóri Vinnslustöðvarinnar segir um ástæður uppstokkunar fyrirtækisins fullyrðir Steingrímur J.

Nú fær hann stuðning frá ekki minni manni en Birni Vali Gíslasyni, þingflokksformanni VG. Þeir félagar segjast vita betur um hag og markmið Vinnslustöðvarinnar en forstjóri hennar, Steingrímur J. sagði á Stöð 2 í kvöld:

„Þannig að ég fæ nú þessar skýringar [hjá forstjóranum] ekki alveg til að ganga upp. Mér finnst þetta lykta af því að fyrirtækið sé að reyna að gera stjórnvöld að blóraböggli fyrir einhverju sem séu nú bara aðstæður í rekstri þessa fyrirtækis sem þar sé verið að takast á við.“

Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG, veit líka betur en forstjóri Vinnslustöðvarinnar hver er vandi fyrirtækisins. Björn Valur segir á vefsíðu sinni í dag:

„Fjárfesting í nýjum skipum hefur því ekki verið fyrirtækinu þungbær til þessa. Vinnslustöðin hefur sömuleiðis átt við ákveðin innanmein að stríða sem hefur kristallast í átökum milli eigenda fyrirtækisins sem staðið hafa yfir í mörg ár.


Hún er því ekki gild sú skýring eigenda fyrirtækisins að kenna aðgerðum stjórnvalda um að þurfa að segja upp tugum starfsmanna sinna.“

Þess eru ekki mörg dæmi utan einræðisríkja að stjórnmálamenn segist vita betur en eigendur fyrirtækja hvernig hag fyrirtækjanna er háttað og hvað sé þeim helst til bjargar,

Miðað við kostnaðinn sem skattgreiðendur sátu uppi vegna viðskipta Más og Steingríms J. með Sjóvá er ástæða til að óttast um þjóðarhag þegar Steingrímur J. og Björn Valur telja sig færa um að segja stjórnendum Vinnslustöðvarinnar að þeir fari með rangt mál þegar þeir taka alvarlega og afdrifríka ákvörðun um málefni fyrirtækis síns.

Í Vestmannaeyjum fóru menn á mis við útrásina, þeir stóðu þó flestir vel af sér hrunið og hafa látið verulega að sér kveða við að færa björg í bú. Þeir hagnast í samræmi við erfiði sitt og útsjónarsemi. Þeir Steingrímur J. og Björn Valur sjá ofsjónum yfir þessu. Þeir vega að fyrirtækjum en segja þau illa rekin þegar gripið er til ráðstafana til að verjast atlögunni.