27.6.2012 22:41

Miðvikudagur 27. 06. 12

Í dag ræddi ég við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, í þætti mínum á ÍNN og má horfa á hann á miðnætti, 02.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Hanna Birna er skelegg að venju.

Það dregur að forsetakosningum. Fréttastofa RÚV keppist í dag við að flytja fréttir um að kreppan „sé búin“ hér á landi og það styttist í að allt komist í samt lag á efnahagssviðinu. Það skyldi þó ekki tengjast viðleitni til að búa í haginn fyrir forsetaframbjóðanda sem nýtur stuðnings fréttastofunnar og velþóknunar ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar?

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Steingrímur J. Sigfússon, þáv. fjármálaráðherra, lögðu saman krafta sína í viðskiptum ríkisins með Sjóvá. Nú hefur ríkisendurskoðun litið á hvernig þeir stóðu að málum. Heildartap ríkisins vegna þessara viðskipta nemur á bilinu 3,4 – 4,8 milljörðum króna að mati ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni segir að tapið komi ekki á óvart enda hafi ríkið greitt 11,6 milljarða króna fyrir eignarhlut í félagi sem í reynd hafi verið gjaldþrota.

Sérkennilegt er að ríkisendurskoðun sér ekki tilefni til að gera athugasemdir við söluferlið eða ákvarðanir forsvarsmanna seðlabankans vegna viðskiptanna. Hvers vegna skyldi það ekki gert?

Er það í samræmi við kröfur um aukið eftirlit og aðhald stofnana á borð við ríkisendurskoðun í rannsóknarskýrslu alþingis að ekki er lagt mat á vinnubrögð þeirra Más og Steingríms J.?