14.6.2012 21:45

Fimmtudagur 14. 06. 12

Veðrið breyttist til hins betra hér við ströndina í Toskana í dag, það lægði og sólin skein. Spáin er í þessa veru næstu daga og þá verður lítið annað gert en að sleikja sólina.

Ég fékk nýjasta hefti Þjóðmála sent sem pdf.skjal í dag og hef hlaðið það niður á iPadinn og get því lesið fróðlegar greinar undir sólhlífinni. Nú geta menn verið áskrifendur að hvaða tímariti sem er og fengið það sent til sín hvar sem þeir eru staddir og í tölvusambandi.

Ég get einnig hlustað á rás 2 á iPadinum á sérstöku appi - er ekkert íslenskt orð til? - mig undrar hins vegar að ekki sé unnt að hlusta á rás 1, það gat ég fyrir nokkrum vikum en síðan datt hún út - hvað veldur? Ég viðurkenni að ég hlusta ekki mikið á RÚV hér í suðlægri blíðu heldur nýti mér aðra miðla sem ég hef við fingurgómana.

Í dag setti ég langa grein úr The Economist inn á Evrópuvaktina og má lesa hana hér.