26.6.2015 22:00

Föstudagur 26. 06. 15

Þrjú hryðjuverk voru framin í dag í Lyon í Frakklandi, í Kúvæt og Túnis. Var þetta skipulögð aðgerð eða tilviljun? Hafi verið um samræmda aðgerð að ræða sýnir hún að íslamskir hryðjuvekamenn hafa stigið enn eitt ógnarskrefið, samræmt í þremur heimsálfum.

Leiðtogaráð ESB ræddi um skuldamál ESB í dag en þó með því fororði að ákvörðunin væri í höndum lánardrottna, ESB, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Alexis Tsipras forsætisráðherra sagði stjórn sína ekki geta samþykkt skilyrði lánardrottnanna, þau væru of þrúgandi. Fjármálaráðherrar evru-ríkjanna koma saman síðdegis laugardaginn 27. júní og leita enn sameiginlegrar niðurstöðu með Grikkjum.

Á sama tíma og Tsipras lýsti óánægju sinni sagði Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, að ekki ætti endilega að reikna með að evru-ráðherrafundinum lyki án samkomulags laugardaginn 27. júní. Kom á óvart að gríski fjármálaráðherrann væri bjartsýnni um samkomnulag en forsætisráðherrann

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði að hún og François Hollande Frakklandsforseti hefðu hvatt Alexis Tsipras að samþykkja „höfðinglegt boð“ lánardrottnanna þriggja. Gríski forsætisráðherrann sagðist fús til að breyta lögum um virðisaukaskatt (hann er sex-þrepa í Grikklandi) og eftirlaunarétt en hann gæti ekki gert það fyrir 1. júlí eins og lánardrottnarnir krefðust. Auk þess sættu Grikkir sig ekki við að aðeins væri um fimm mánaða gálgafrest að ræða.

Í kvöld tilkynnti síðan Alexis Tsipras að hann ætlaði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi sunnudaginn 5. júlí um það sem í boði væri.

Augljóst er að leiðtogar ESB-ríkjanna vilja ekki láta brjóta á sér gagnvart Grikkjum enda kölluðu þeir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til liðs við sig til að Grikkir yrðu að lúta agareglum sjóðsins án beinnar íhlutunar stjórnmálamanna annarra ríkja sem stæðu hins vegar vörð um hag þjóða sinna.

Svo oft hefur verið sagt undanfarna mánuði að um „síðasta tækifæri“ fyrir Grikki væri að ræða án þess að það reyndist rétt að almennt hefur verið álitið að áfram yrði svamlað án þess að taka af skarið. Nú hefur Alekis Tsipras dregið nýja víglínu með ákvörðuninni um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar George Papandreou, forveri Tsipras, viðraði hugmynd um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir nokkrum árum sáu valdamenn innan ESB um að koma honum frá völdum.