22.6.2015 19:00

Mánudagur 22. 06. 15

Tiltölulega skammt er síðan svonefnd starfsáætlun kom til sögunnar á alþingi. Þeir sem fylgjast með umræðum á þingi nú eða fréttum af þingstörfum gætu ætlað að án slíkrar áætlunar væri alþingi óstarfhæft. Frétt á mbl.is í dag hefst á þessum orðum:

„Þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar stigu hver á fæt­ur öðrum í pontu í upp­hafi þing­fund­ar á Alþingi í dag og kölluðu eft­ir því að lögð yrði fram starfs­áætl­un fyr­ir sum­arþingið. Katrín Jak­obs­dótt­ir, formaður Vinstri grænna, sagði að þingið hefði verið í „óvissu­ferð“ í þrjár vikur.“

Þessar ræður stjórnarandstæðinga sanna enn einu sinni að þeim er ókleift að takast á við málefnin sem fyrir alþingi liggja og vilja helst ekki ræða um annað en almanakið. Að þingsköp leyfi innantómt raus af þessu tagi dögum saman ber í besta falli vott um rúma lögskýringu.

Fyrir rúmum tveimur áratugum sat ég á Evrópuráðsþinginu og stjórnaði þar fundum oftar en einu sinni. Þar var aginn meiri en á alþingi og þingmenn virtu úrskurð forseta sem slökkti einfaldlega á hljóðnemanum væri ekki farið að fyrirmælum hans. Hér hefur þróunin orðið á allt annan veg og forseti alþingis líður að hundruð eða þúsundir ræða séu fluttar um fundarstjórn hans þótt ræðurnar snúist í raun um allt annað.

Virðing þingsins ber oft á góma í þessum umræðum sem sannar best að þar kveða menn gjarnan öfugmælavísur. Umræður um almanakið og að tíminn líði eru síst til þess fallnar að auka virðingu alþingis. Stjórnarandstöðuflokkarnir sem ráða yfir fleiri en þremur þingmönnum til að taka þátt í þessari misnotkun á málfrelsinu tapa fylgi í skoðanakönnunum.

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, hefur til dæmis leitt flokk sinn þannig á þingi að hann fengi nú ekki neinn kjörinn yrði gengið til kosninga – samt heldur Róbert áfram að tala um almanakið.