13.6.2015 23:25

Laugardagur 13. 06. 15

Þegar fréttir voru kynntar í ríkisútvarpinu í dag var sagt að sænska ríkissjónvarpið ætlaði að senda í níu klukkustundir frá brúðkaupi prinsins Karls Filipps og Sofíu í Svíþjóð þrátt fyrir óvinsældir sænsku konungsfjölskyldunnar. Þetta var einkennileg kynning án þess að heimildarmanns væri getið, mátti helst halda að það væri skoðun fréttastofunnar, að óþarfi væri að eyða þessum tíma í þennan atburð vegna þess hverjir áttu þar hlut að máli. Líklega er þó ekkert sjónvarpsefni vinsælla en þetta.

Í dag var efnt til tónleika í Norðurljósasal Hörpu til að fagna 70 ára afmæli Tónskáldafélags Íslands. Kjartan Ólafsson, fráfarandi formaður félagsins, setti athöfnina. Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti hátíðarræðu. Jakob Frímann Magnússon, varaformaður STEFs, afhenti Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Magnúsi Þór Jónssyni (Megasi), gullna heiðursmerki STEFs. Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld kynnti tónlistarsjóð Jóns Leifs,. Ragnheiður Þórarinsdóttir, deildarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, flutti kveðju ráðherrans og afhenti 500 þús. kr, gjöf í hinn nýja tónlistarsjóð. Mestu skipti þó tónlistin sem flutt var af Caput, Kammersveit Reykjavíkur og Hamrahlíðarkórnum – allt tónlist eftir íslensk tónskáld.

Tvennt vakti sérstaka athygli mína á þessari ágætu afmælishátíð: (1) að ríkisútvarpið sá ekki ástæðu til að taka hana upp – forráðamenn tónskáldafélagsins til margra ára: Jón Leifs, Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson höfðu allir mótandi áhrif á menningarhlutverk ríkisútvarpsins sem forystumenn við dagskrárgerð, þeir áttu ríkan þátt í að ávinna stofnuninni sess sem burðarstólpa í íslensku menningarlífi. Sé áhugaleysi stofnunarinnar á þessari hátíð notað sem mælikvarði á menningaráhuga núverandi stjórnenda hennar falla þeir á prófinu. (2) Jakob Frímann fór ákaflega lofsamlegum orðum um ræðu Ólafs Ragnars á dögunum yfir þátttakendum í alþjóðamóti höfunda kvikmyndatónlistar sem þegið hefðu boð til Bessastaða –þaðan hefðu þeir haldið upptendraðir af boðskap forseta – yrði nokkur sambærilegur vandfundinn ef Ólafur Ragnar hyrfi úr embættinu – væri nú leitað grannt að einhverjum verðugum.