10.6.2015 21:00

Miðvikudagur 10. 06. 15

Í dag ræddi ég við Kristin Andersen, prófessor, formann Verkfræðingafélagsins og bæjarfulltrúa sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má næst sjá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun – hann er einnig aðgengilegur nú á tímaflakki Símans.

Eitt hið sérkennilegasta sem heyrist úr ræðustól alþingis eru kveinstafir Steingríms J. Sigfússonar (VG) yfir því að ekki sé talað nægilega virðulega um hann. Jón Gunnarsson (S) benti á að Lilja Rafney Magnúsdóttir (VG) hefði ekki verið sannfærandi þegar hún ræddi nauðsyn þess að virða ákvæði ívilnunarlaga vegna nýfjárfestinga, Það hefði  „þurft sérákvæði“ til að ívilnanir vegna framkvæmda á Bakka við Húsavík stæðust lög þrátt fyrir ívilnunarlögin. Þetta hefðu VG-þingmenn stutt þar sem Steingrímur J. hefði flutt málið sem snerti kjördæmi hans.

Af því að þessi orð Jóns Gunnarssonar féllu undir liðnum „störf þingsins“ stóð Steingrímur J. upp eldrauður af reiði og bað um orðið undir liðnum „fundarstjórn forseta“. Steingrímur J. sagði:

 „Það er auðvitað ekki boðlegt að þingmenn þurfi að sæta því, og sitja undir því, dauðir eins og það er kallað í umræðu, og geta ekki borið hönd yfir höfuð sér. Auðvitað kippi ég mér ekki mikið upp við skítadreifarana frá háttvirtum þingmanni Jóni Gunnarssyni og ég mun hafa tækifæri síðar til að jafna þá reikninga ef svo ber undir. En mér er meira umhugað um það að svona lagað sé ekki látið líðast hérna í störfum þingsins. Að svona lágkúra og ódrengskapur að vega að mönnum sem ekki geta svarað og hafa ekki ræðurétt í umræðu sé látin viðgangast en auðvitað er skömmin háttvirts þingmanns.“

Þessi viðbrögð Steingríms J. bera fyrst og síðast vott um mikla vanstillingu hans. Hvar er „lágkúran og ódrengskapurinn“ í ræðu Jóns? Vill Steingrímur J. að forseti alþingis slái í bjölluna í hvert sinn sem hann er nafngreindur í ræðum um störf þingsins?

Umræður um þessar umræður þingmanna stóðu í 15 mínútur miðvikudaginn 10. júní 2015.