18.6.2015 20:35

Fimmtudagur 18. 06. 15

Þegar þetta er skrifað hafa um 60% atkvæða verið talin í dönsku þingkosningunum og er því spáð að bláablokkin, hægrimenn, fái 92 þingmann og rauðablokkin, vinstrimenn, 83 þingmenn. Það verði því stjórnarskipti í Danmörku.

Hinn einstæði atburður gerðist að DF, Danska þjóðarflokknum, er spáð meira fylgi en Venstre, hinum gamalgróna forystuflokki bláublokkarinnar.

Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre, hefur verið forsætisráðherra og var forsætisráðherraefni bláublokkarinnar. Innan hennar hafa DF-menn látið sér lynda að tryggja samstarflokkunum stuðning á þingi án þess að eiga ráðherra í ríkisstjórn. Hvað gerist nú verði þingflokkur DF stærri en Venstre? Spáð er að DF fái 38 þingmenn en Venstre 35? Er frambærilegt að halda DF utan ríkisstjórnar? Flokkurinn vinnur að líkindum 16 þingsæti en Venstre tapar 15.

Fyrir nokkrum mánuðum barðist Lars Løkke Rasmussen fyrir lífi sínu sem formaður Venstre eftir að fréttir birtust sem voru á þann veg að efast mátti um dómgreind hans þegar skýrt var frá meðferð hans á opinberum eða hálfopinberir fjármunum. Rasmussen hélt formannssætinu en ekki er vafi á að flokkur hans tapar atkvæðum á framgöngu hans. Að hann sitji áfram stangast á við allar fullyrðingar íslenskra álitsgjafa um að í útlöndum víki stjórnmálamenn frekar sæti vegna ámælisverðra atvika en gerist hér á landi. Líklegt er að ekki líði á löngu þar til hann dregur sig í hlé.

Stóra spurningin er: Hver verður næsti forsætisráðherra Dana?

Fyrir þann sem fylgst hefur með talningu atkvæða og kynningu á úrslitum í ríkisútvarpinu hér á landi er eftirtektarvert að í Danmörku eru fréttamenn ekki að burðast með neina álitsgjafa úr háskólum heldur er lögð áhersla á að ræða við stjórnmálamennina sjálfa auk þess sem tveir þrautþjálfaðir fréttamenn halda utan um útsendinguna af miklu öryggi og þekkingu á mönnum og málefnum.

Þess verður ekki heldur vart að í Danmörku leggi fréttamenn DR áherslu á að bera úrslitin saman við niðurstöður skoðanakannanna sem hvílir þungt á íslenskum fréttamönnum – þeir mættu læra af starfsbræðrum sínum hjá DR.