15.6.2015 21:00

Mánudagur 15. 06. 15

Skuldaþrengingar Grikkja hafa nú sett svip sinn á störf og stefnu Evrópusambandsins í sex ár. Spurningin er hvort nú sé loks komið að skuldadögunum. Allir viðmælendur Grikkja virðast hafa fengið nóg af samtölum við þá. Má þar til dæmis nefna Sigmar Gabriel, leiðtoga þýskra jafnaðarmanna (SPD) og efnahagsmálaráðherra Þýskalands.

Gabriel sagði árið 2012 að stæðu menn ekki með Grikkjum í þrengingum þeirra kynni að verða stjórnmálaöngþveiti í landinu. Nú segir hann að innan ESB og í Þýskalandi láti menn ekki undan þrýstingi „og við munum ekki láta þýska verkamenn og fjölskyldur þeirra standa undir yfirboðum og kosningaloforðum ríkisstjórnar sem að hluta er skipuð kommúnistum“.

Süddeutsche Zeitung segir að forystumenn evru-hópsins og Seðlabanka evrunnar (SE) smíði nú tillögur um fjármagnshöft í Grikklandi þau verði hluti af úrslitakostum gangvart Grikkjum. Kýpverjar settu fjármagnshöft árið 2013 þegar SE hótaði að stöðva neyðargreiðslur til banka landsins. Innan evru-svæðisins verða einstök ríki að eiga frumkvæði að fjármagnshöftum. Fréttir frá Grikklandi herma að öfl innan stjórnarflokksins, Syriza, vilji engin höft, án þeirra neyðist SE að dæla peningum í gríska bankakerfið og leggi þannig þyngri byrðar að evru-þjóðir segi Grikkir skilið við evruna.

Sjónarmið vinstrisinna í skattamálum er að hærri skattar skili ríkissjóði auknum tekjum. Þetta var ástæðan fyrir því að vinstri flokkar í Sviss lögðu fyrir þjóðina að samþykkja 20% erfðafjárskatt – tekjur af honum ættu að jafna kjörin, þeim ætti að verja í þágu eftirlaunaþega og þær ættu að taka frá hinum ríku. Rúmlega 70% kjósenda hafnaði tillögunni. Andstæðingarnar sögðu að enginn græddi á sértækum aðgerðum gegn auðugu fólki – það stæði undir atvinnulífinu. Með aðför að því yrðu allir fátækari.

Þessi viðhorf eru í hróplegri andstöðu við skoðanir þeirra sem telja íslensku þjóðinni helst til bjargar að ganga af sem mestri hörku fram gegn útgerðarfyrirtækjum.