24.6.2015 20:10

Miðvikudagur 24. 06. 15

 

Í dag ræddi ég á ÍNN við Sigríði Snæbjarnardóttur, hjúkrunarfræðing og framkvæmdastjóra fyrirtækisins Klínikin ehf., sem verður opnað innan skamms við Ármúlann í Reykjavík, þar sem skemmtistaðurinn Broadway var áður til húsa. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld og síðan má sjá hann á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Á tímaflakki Símans má sjá fundinn hvenær sem er eftir klukkan 20.00.

Fréttir bárust um það fyrir tilstuðlan WikiLeaks þriðjudaginn 23. júní að NSA, Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, hefði hlerað síma þriggja forseta Frakklands: Jacques Chiracs, Nicolas Sarkozys og François Hollandes. Franska ríkisstjórnin mótmælti nú í þriðja sinn við sendiherra Bandaríkjanna að þessi leynistarfsemi væri stunduð. Það var fyrst gert í júlí 2013 og síðan í október 2013 eftir að fréttir bárust um hlerun á símum 35 háttsettra evrópskra embættismanna. Þá kallaði Alexandre Ziegler, aðalráðgjafi Laurents Fabius utanríkisráðherra, á Charles Rivkin, sendiherra Bandaríkjanna, til fundar í utanríkisráðuneytinu á Quai d'Orsay og flutti honum mótmæli stjórnvalda. „Ég heyri hvað þú segir,“ sagði sendiherrann. „Það er einmitt vandamálið,“ svaraði aðalráðgjafinn ef marka má Le Monde.

Í morgun sagði Guðjón Smári Agnarsson ríkisstarfsmaður í grein í Morgunblaðinu:

„Svo munu forsvarsmenn lækna hafa fengið almannatengslafyrirtæki til þess að mata fjölmiðla á vandræðum sjúklinga í skæruverkföllunum sem fóru á undan boðuðu allsherjarverkfalli lækna. Mér sýndist fjölmiðlarnir spila með, a.m.k. ríkisútvarp vinstrimanna (RÚV). Hvort fréttamennirnir létu almannatenglana plata sig eða hvort þeir vildu sjálfir koma höggi á yfirvöld heilbrigðismála og jafnvel alla ríkisstjórnina er erfitt að meta.“

Þessa skýringu á skammstöfuninni RÚV hef ég aldrei séð áður. Ætli það sé algengt að menn skýri hana á þennan hátt? Aldrei hefur fengið viðhlítandi svar við spurningum um hvers vegna útvarpsmenn hættu að tala um ríkisútvarpið og tóku um RÚV í staðinn. Er svarið nú komið?