4.6.2015 21:10

Fimmtudagur 04. 06. 15

Samtal mitt við Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á ÍNN frá því gær er komið á netið og má sjá það hér.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, á í vök að verjast vegna þess hvernig staðið var að ráðstöfun nýju bankanna, Arion-banka og Íslandsbanka, til einkaaðila á árinu 2009 þegar hann var fjármálaráðherra. Dularfyllri einkavæðing er óþekkt utan gömlu kommúnistaríkjanna eftir hrun Sovétríkjanna: „Það varð hrun,“ sögðu valdhafar þá og töldu sig geta farið sínu fram. Hve oft sagði ekki Steingrímur J.: „Það varð hrun“ til að afsaka verk sem nú þola ekki dagsbirtu.

Vigdís Hauksdóttir (F) lýsti vinnubrögðum Steingríms J. á þennan veg í þingræðu miðvikudaginn 3. júní:

„Það sem gerðist hér undir jól árið 2009 var að fjárlög og fjáraukalög voru samþykkt þann 21. desember. Það var svo klukkan 8 þann 21. desember að kvöldi að komið var með frumvarp í þingið. Það varð að lögum á hádegi daginn eftir  þar sem fengin var eftirálagaheimild fyrir þeim gjörningi [að afhenda kröfuhöfum eignarhluti íslenska ríkisins í bönkunum — án lagaheimildar]. Ég spyr því hv. þm Steingrím J. Sigfússon: Hvers vegna var þetta ekki sett inn sem 6. gr. heimild í fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010?“

Steingrímur J. svaraði:

„Svör við spurningum hv. þingmanns eða málflutningi hafa legið fyrir opinberlega, og þar á meðal í þingskjölum, í bráðum 6 ár. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 128/2009 í desember 2008 (svo!) er þetta ágætlega rakið. Þetta eru lög sem heimila staðfestingu niðurstöðu samninga um uppgjör milli gömlu og nýju bankanna og eignarhlutföll í nýju bönkunum. Það frumvarp var samþykkt mótatkvæðalaust, og það má láta þess getið til gamans, herra forseti, vegna umfjöllunar Mogga gamla að undanförnu, að hv. þm. Lilja Mósesdóttir og hæstv. ráðherra Jón Bjarnason greiddu bæði frumvarpinu atkvæði sitt.“

Svarið staðfestir það sem Vigdís Hauksdóttir sagði og einnig Lilja Mósesdóttir og Jón Bjarnason um afgreiðslu þessa máls. Þessi einstæða einkavæðing bankanna til óþekktra kröfuhafa var samþykkt á laumulegan hátt á alþingi. Sagan sýnir að það eru síður en svo meðmæli með málum að þau séu afgreidd án mótatkvæða.