21.6.2015 19:00

Sunnudagur 21. 06. 15

Fimmtudaginn 18. júní var skrifað undir samkomulag um að hátæknifyrirtækið CCP sem gerir tölvuleiki fái aðstöðu í húsi sem rís á landi Háskóla Íslands sem ætlað er undir svonefnda vísindagarða. Á vefsíðu Háskóla Íslands segir:

„Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf. er félag í 100% eigu Háskólans. Félagið var  stofnað til að efla samstarf fyrirtækja, rannsóknastofnana og háskóla um nýsköpun og skapa aðstöðu fyrir frumkvöðla. Félagið hyggst reisa miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á lóð sem það hefur til umráða.“

Á vefsíðu Reykjavíkurborgar segir í tilefni af þessum atburði segir:

Vísindagarðar Háskóla Íslands er félag sem er að stærstum  hluta í eigu háskólans en einnig Reykjavíkurborgar.“

Hvort er rétt? Hver er hlutur Reykjavíkurborgar í hlutafélaginu um vísindagarða?

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fjallaði um gerð þessa samkomulags í vikulegu bréfi sínu á netinu. Mátti skilja frásögn hans á þann veg að hér væri um verk borgarstjórans að ræða. Dagur B. segir að við undirritunina hafi Hilm­ar Veig­ar Pét­urs­son, for­stjóri CCP, rifjað upp að lík­lega væru10 ár síðan Dag­ur hefði fyrst stungið upp á að CCP flytti sig í ná­vígi við Há­skóla Íslands. „Það er hins veg­ar aðeins hált ár síðan ég hitti for­svars­menn fyr­ir­tæk­is­ins vegna áforma þeirra um að flytja og auka ný­sköp­un­ar­tengsl fyr­ir­tæk­isins,“ seg­ir borgarstjóri og einnig: „Það er frá­bært að þessir mik­il­vægu samn­ing­ar séu nú í höfn því það er alls ekki sjálfsagt að við höld­um í fyr­ir­tæki af þessu tagi.“

Hér skal því ekki haldið fram að borgarstjóri skreyti sig með fjöðrum annarra. Hitt er ljóst að hlutur Reykjavíkurborgar er á gráu svæði. Skipulagslega mun byggingin sem kemur til með að hýsa CCP ná yfir svæði sem nú er skipulagt sem tvær lóðir. Borgaryfirvöld þurfa því að samþykkja skipulagsbreytingu áður en framkvæmdir hefjast.

Frásögn Dags B. má skilja á þann veg að framtíð CCP hér landi ráðist af húsnæðismálum. Undanfarin ár hefur forstjóri CCP þó sagt að aðild að ESB og upptaka evru skipti sköpum fyrir framtíð CCP á Íslandi. Fagna ber að þetta hefur breyst.