8.6.2015 20:40

Mánudagur 08. 06. 15

Þegar hlustað er lýsingar Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, á aðferðinni sem beitt hefur verið í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til að losa þjóðina úr viðjum fjármagnshafta skýrist enn betur en þó var áður ljóst hve illa ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hélt á þessu máli eins og svo mörgum öðrum.

Af hálfu Steingríms J. Sigfússonar og VG var enginn áhugi á að losa um höftin, þau féllu vel að ofstjórnarstefnu flokksins. Í skjóli haftanna var Steingrími J. auðveldara en ella að stunda hinar hroðalegu fjármálasviptingar sem leiddu meðal annars til þess að kröfuhafar fengu nýju bankana í hendur án nauðsynlegs gegnsæis.

Samfylkingarfólkið vildi nota höftin til að troða þjóðinni inn í ESB og evrunni upp á þjóðina. Hversu oft var ekki fullyrt, ekki síst af Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, að ekki væri unnt að afnema höftin nema með inngöngu í ESB?

Hið merkilega er að hvorki Steingrímur J. né Árni Páll höfðu hina minnstu hugmynd um hvernig þeir ætluðu að leysa vandann – þeir sáu ekki málið í heild af því að þeir létu aldrei vinna það starf sem gert hefur verið undir forystu Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Rannsakað hefur verið af mikilli elju hver var aðdragandi hrunsins og lagt mat á hver hefðu átt að vera viðbrögð stjórnvalda sem gátu ekki frekar en aðrir sagt fyrir um framtíðina. Eftir hrunið var verkefnið að vinna á fortíðarvanda. Í rúm fjögur ár frá 1. febrúar 2009 sat hér ríkisstjórn sem tók ekki á þessum vanda heldur jók á hann með röngum ákvörðunum og forkastanlegri stefnu. Það er tímabært að rýna í þá þróun alla á skipulegan hátt.