30.6.2015 18:00

Þriðjudagur 30. 06. 15

Nú hefur komið í ljós að unnt er að ljúka þingstörfum án þess að starfsáætlun þingsins sé í gildi. Um tíma fluttu þingmenn ræður og örvæntu um framtíðin af því að þá vantaði starfsáætlun! Af þeim kvörtunum og ummælum þingfréttaritara ríkisútvarpsins mátti ráða allt væri í hers höndum vegna þess að starfsáætlun alþingis hefði runnið sitt skeið. Myndin sem dregin er upp af alþingi með þessu tali er hvorki stofnuninni né þingmönnum til framdráttar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði í þingræðu mánudaginn 22. júní:

„Sú krafa er eðlileg sem hér er uppi að við fáum starfsáætlun fyrir sumarþing. Það er eðlilegt að við fáum að vita hvenær ætlunin er að svara undirbúnum fyrirspurnum, eða þurfum við að fara að spyrja þeirra í óundirbúnum fyrirspurnum? Verða sérstakar umræður? Það sér hver maður að enginn bragur er á þinghaldinu eins og það hefur verið undanfarnar þrjár vikur. Því fyrr sem við fáum einhverja framtíðarsýn í þeim efnum þeim mun betra, þeim mun betra fyrir Alþingi.“

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn pírata, sagði:

„Það er ljóst að erfiðlega gengur að koma saman einhvers konar samkomulagi um þinglok, því tel ég að það sé nauðsynlegt að við fáum starfsáætlun. Það er líka ljóst að forseti virðist vera í einhverjum erfiðleikum með að koma starfsáætlun til okkar og ég býðst hreinlega til þess með þingmönnum minni hlutans að koma fram með einhvers konar starfsáætlun ef það reynist svona erfitt fyrir forseta að gera það.[…] Það gengur ekki að við séum hér í óvissuferð, eins og einhver nefndi áðan, viðstöðulaust. Það er mjög vond stjórnsýsla. […] Ég skora á forseta að koma með starfsáætlun.“

Birgitta Jónsdóttir flutti ræðu á alþingi í dag, þriðjudaginn 30. júní, og hvatti til stuðnings við málstað Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, af því að ESB hefði hvatt Grikki til að fara gegn honum en„sömu aðilar og studdu okkur Íslendinga, þegar við vorum að berjast í bökkum og vorum í áfalli í því mikla hruni sem gekk yfir okkur, hafa lýst yfir stuðningi við grísku þjóðina, aðilar eins og Stieglitz og Krüger og margir fleiri,“ sagði þingmaðurinn „Krüger“ er líklega Paul Krugman Nóbelsverðlaunahafi. Hún dró í efa að Grikkir væru „latir og skattsvindlarar“.