9.6.2015 18:40

Þriðjudagur 09. 06. 15

Viðkvæmni ESB-sinna á Íslandi er meiri en almennt í öðrum löndum sé litið fram hjá embættismönnum ESB og áköfustu sambandssinnum á ESB-þinginu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi við Sky-sjónvarpið um afnám haftanna mánudaginn 8. júní. Hann lýsti þar þeirri skoðun að það hefði skipt sköpum fyrir Íslendinga að vera ekki í ESB. Þessi orð fóru fyrir brjóstið á álitsgjafanum Agli Helgasyni sem segir á vefsíðu sinni þriðjudaginn 9. júní:

„Þessi yfirlýsing [forsætisráðherra] er einhvern veginn alveg óþörf …“

Engu er líkara en Egill fylgist ekki með erlendum fjölmiðlum þar sem fjallað er um aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar. Þær eru jafnan bornar saman við það sem gerst hefur í ESB- eða evru-löndum frá hruni fjármálamarkaðanna haustið 2008.

Í The New York Times segir þriðjudaginn 9. júní:

„Its [Íslands] economy has recovered nicely, although problems remain. Iceland is expected to grow 2.7 percent this year. Unemployment is 3.1 percent, lower than in both the European Union and the United States.

These results stand in stark contrast to Greece and other countries in southern Europe, which use the euro and do not have their own currency to manage. As Greece still scrambles to deal with its debt problems, concerns are rising that the country will have to exit the currency union.“

Ummæli forsætisráðherra um ágæti þess að Ísland sé utan ESB og evru fellur vel að ofangreindri niðurstöðu blaðamanna NYT. Yfirlýsing forsætisráðherra um Ísland utan ESB var alls ekki óþörf heldur þarft framlag til umræðna um stöðu smáþjóða innan ESB. Auk þess hittir hún í mark hjá Bretum sem búa sig undir átök við ESB um leiðir til að bæta réttarstöðu sína gagnvart miðstjórnarvaldi ESB og átök innbyrðis um hvort þeir eigi að vera áfram í ESB eða ekki.

ESB-sinnar á Íslandi eru einfaldlega kaþólskari en páfinn og þola ekki að orðinu sé hallað um hin helgu vé sambandsins. Sárindi þeirra fyrir hönd ESB hafa aukist eftir því sem betur kemur í ljós að aðildarferlið frá 16. júlí 2009 fram til 13. janúar 2013 var sannkölluð hrakför. Hún er nú víti til að varast eins og sést af tillögu ESB-flokkanna um að henni verði ekki haldið áfram nema þjóðin samþykki í atkvæðagreiðslu.