12.6.2015 19:30

Föstudagur 12. 06. 15


Þátt minn á ÍNN frá miðvikudegi 10. júní þar sem ég ræði við Kristin Andersen prófessor má nú sjá hér.

Einkennilegir atburðir gerast í æðstu valdaröðum í Kína.

Föstudaginn 11. júní var Zhou Yongkang (72 ára), fyrrverandi yfirmaður lögreglu, dómsmála og leyniþjónustu einræðisríkisins, dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir spillingu og fyrir að hafa lekið ríkisleyndarmálum. Dómarinn las dóminn og spurði hinn sakfellda sem stóð gráhærður og niðurlútur: „Ákærði Zhou Yongkang, skiljið þér dóminn?“ Hinn ákærði: „Já.“ Dómarinn: „Ákærði Zhou Yongkang, viljið þér segja réttinum eitthvað?“ Hinn ákærði: „Ég sætti mig við dóminn og áfrýja ekki. Ég viðurkenni afbrot mín og að ég hef margoft brotið lög og reglur flokksins sem hefur valdið flokknum miklum skaða og haft alvarleg neikvæð áhrif á samfélagið. Ég lýsi mig sekan og iðrast.“

Þessi orðaskipti voru sýnd í sjónvarpi og minntu á atriði í sakamálamynd en í augum kínverskra áhorfenda var um einstakan, sögulegan stóratburð að ræða – aldrei fyrr hefur svo háttsettur maður innan kommúnistaflokksins verið dæmdur sekur fyrir spillingu – í fimm ár 2007 til 2012 átti hann sjálfur síðasta orðið innan réttarkerfisins. Enginn efast um að fyrst hafi æðstu menn flokksins fundið hann sekan áður en dómarinn kom til sögunnar. Í fjörutíu ára sögu Kína eftir að Maó sleppti valdataumunum og geðþóttastjórn hans lauk hefur enginn fyrrverandi félagi í fastanefnd flokksins (hinni sameiginlegu æðstu flokkstjórn) hlotið refsidóm. Í Le Monde segir að á Weibo, vinsælasta bloggvef Kína, hafi mest kveðið að undrun yfir að sléttgreitt tinnusvart hár Zhous hafði vikið fyrir gráum hárum.

Spurningunni um hvort þetta séu endalok hreinsana nýrra valdhafa eða upphaf að frekari hreinsunum getur enginn utan hins lokaða valdakjarna svarað. Þannig er háttað stjórn annars mesta efnahagsveldis heims sem lætur æ meira að sér kveða um heim allan og munar ekki um að grípa til landfyllinga á kóralskerjum í Suður-Kínahafi til að ögra nágrönnum sínum með kröfum um yfirráð sem ganga á rétt þeirra.