19.6.2015 18:30

Föstudagur 19. 06. 15

Þess er minnst á verðugan hátt í dag að 100 ár eru liðin síðan konur fengu kosningarétt á Íslandi. Er það þjóðlífinu til blessunar hér eins og hvarvetna þar sem konur njóta sambærilegs réttar og karlar.

Lýsing á stefnu BHM gegn ríkinu vegna laga um verkfall á félagsmenn BHM ber með sér að Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrv. framkvæmdastjóri og þingmaður Samfylkingarinnar, vilji leggja pólitískan ágreining undir dómara. Dómarar hafa ekkert lýðræðislegt umboð til að taka pólitískar ákvarðanir. Þeim ber að virða þrískiptingu valdsins. Stefnan staðfestir enn pólitískt eðli aðgerða forystumanna BHM. Þeir nota verkfallsvopnið til að lemja á ríkisstjórn sem þeir styðja ekki.

Undarlegt er að félagsmenn líði forystumönnum sínum þessar pólitísku æfingar mótmælalaust. Röksemdirnar snúast um að gera lítið úr þjóðfélagslegu mikilvægi starfa BHM-félaga.

Í gær hringdi Kristófer einn stjórnanda þáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í mig með ósk um að ég ræddi við hann spurningu hans um hvort nýtt kalt stríð væri hafið og hvaða áhrif það hefði á öryggi Íslands. Ég varð við ósk Kristófers og hér má hlusta á samtal okkar. 

Á vefsíðunni visir.is hafa þrír brugðist neikvætt við því sem ég sagði. Einn þeirra þorir ekki að segja rétt til nafns og læt ég orð hans liggja á milli hluta. Hafi menn ekki hugrekki til að koma fram undir réttu nafni í umræðum í netheimum eru þeir ekki svara verðir.

Maður að nafni Hilmar Thor. segir vegna orða minna: „Varðberg viðheldur Rússagrýlunni.“ Hilmar er sagður búa í Múrmansk í Rússlandi og nefnir Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, til sögunnar vegna þess að í Bylgjunni var ég kynntur sem formaður félagsins. Varðberg hefur í meira en hálfa öld sinnt öryggis- og utanríkismálum.

Um nokkurt skeið hef ég leitast við að birta daglega á vefsíðunni vardberg.is fréttir um öryggis- og utanríkismál. Af nógu er að taka í Evrópu einni.

Það eru dæmigerð viðbrögð frá Rússlandi að halda því fram að frásagnir af þessum málum séu liður í því að viðhalda Rússagrýlunni. Ummælin endurspegla andrúmsloft sem alið er á um þessar mundir á vegum Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og hans manna. Því er haldið að almennum borgurum að Rússland sé umlukið óvinum sem vilji ógna öryggi þeirra og niðurlægja þjóðina.