1.6.2015 18:30

Mánudagur 01. 06. 15

Opinberar umræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa einkennst af formalisma frá því að Samfylkingin og VG tóku höndum saman um aðildarumsókn á árinu 2009. Efnisatriðin hafa skipt minna máli en formið og tíminn. Hraðferð var á umsókninni af því að einhverjum hafði verið talin trú um að mestu skipti að leggja hana fram seinni hluta árs 2009 þegar Svíar færu með forsæti í ráðherraráði ESB. Þegar á reyndi skipti það engu máli.

Þá var sótt um til að „kíkja í pakkann“ – ESB-menn skildu þetta form aldrei. Það þekkist ekki í reglum ESB.

Viðræðurnar við ESB strönduðu í mars 2011 vegna efnislegs ágreinings um sjávarútvegsmál, hann birtist í því formi að ESB afhenti ekki rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Viðræðurnar voru formlega settar á ís í janúar 2013 og aðild að ESB var hafnað í þingkosningunum 2013. Vegna reynsluleysis og klaufaskapar klúðraði ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formsatriðum í ESB-málinu gagnvart alþingi en greip síðan til þess ráðs að senda ESB formlegt bréf um tilkynna að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki. ESB hefur tekið sér langan tíma til að hrinda þessu formsatriði í framkvæmd.

„Ég lít svo á að Ísland sé um­sókn­ar­ríki. Það var Alþingi sem ákvað að sækja um aðild að Evrópu­sam­band­inu og mér finnst það full­kom­lega út í hött að ut­an­rík­is­ráðherra skuli halda að það sé hægt að slíta viðræðunum með þess­um hætti,“ sagði Guðmund­ur Stein­gríms­son, formaður Bjartr­ar framtíðar, í sam­tali við mbl.is mánudaginn 1. júní 2015. Hann sættir sig ekki við formið og bætir við: „Kannski fyr­ir kurt­eis­issak­ir hef­ur Evr­ópu­sam­bandið ákveðið að taka nafn Íslands af vefsíðum..“ Nú er sem sé „kurteisi“ einnig orðin að þætti í málinu. Loks segir hann þetta: „Ég held að það sé kom­in upp sú staða að ut­an­rík­is­ráðherra held­ur að hann hafi slitið þessu en ég held að rest­in af ver­öld­inni viti að hann hafi ekki gert það og þar við situr.“

Guðmundur vill nú að þjóðin samþykki í atkvæðagreiðslu að ræða áfram við ESB. Viðræðurnar snúast um efni en ekki form. Þess vegna sigldu þær í strand og komast ekki af strandstað nema íslenskri fiskveiðilögsögu verði fórnað. Vill Guðmundur Steingrímsson gera það? Restin af veröldinni veit hver skilyrði ESB eru.