9.6.2004 0:00

Miðvikudagur, 09. 06. 04.

Klukkan rúmlega níu lögðum við af stað frá dómsmálaráðuneytinu vestur í Stykkishólm, þar sem við heimsóttum Ólaf K. Ólafsson, sýslumann Snæfellinga, og samstarfsfólk hans og kynntum okkur aðstæður þess og lögreglunnar.

Sýslumenn frá Búðardal, Borgarnesi og Akranesi komu til Stykkishólms og að loknum sameiginlegum hádegisverði ritaði ég undir árangursstjórnunarsamninga við þá og sýslumann Snæfellinga.

Við ókum síðan með Ólafi sýslumanni til Grundarfjarðar og skoðuðum lögreglustöðina þar.

Þá héldum við að Kvíabryggju og kynntum okkur aðstæður í opna fangelsinu þar og þágum við hinir eldri góðar veitingar á meðan þeir yngri í hópnum léku fótbolta við vistmenn. Okkur var sagt, að skömmu áður hefðu eftirlitsmenn á vegum Evrópuráðsins verið á staðnum til að kynna sér aðstæður og hefðu haft á orði, að þeir vissu ekki um neitt fangelsi annað en Kvíabryggju með níu holu golfvöll.

Loks var ekið til Ólafsvíkur, þar sem opnuð var ný lögreglustöð við hátíðlega athöfn með þátttöku Kristins Jónassonar bæjarstjóra.

Á heimleiðinni sýndu Kristinn og Björg Ágústsstjóri, bæjarstjóri á Grundarfirði, okkur nýjan framhaldsskóla, sem Loftorka í Borgarnesi er að reisa fyrir Snæfellinga.

Veður var hið fegursta allan daginn í þessari ánægjulegu og fróðlegu ferð en klukkan var um 19.00 þegar komið var aftur að dómsmálaráðuneytinu.