Fimmtudagur 25. 11. 10.
Mér þótti forvitnilegt að kynnast því hve fræðimenn úr Háskóla Íslands, Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri eru vel að sér um alla þróun mála er varðar norðurskautið og Norður-íshaf. Augljóst er að ríki vinna að því að treysta stöðu sína gagnvart svæðinu með endurskipulagningu á herafla sínum.
Ég vakti máls á því að þverstæða væri í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um að láta að sér kveða sem strandríki á norðurslóðum og stefna jafnframt að aðild að Evrópusambandinu. Með aðild yrði ESB strandríki í stað Íslands.
Ég sagðist hafa skilning á þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að ríkin fimm innan Norðurskautsráðsins ættu ekki að hittast sérstaklega heldur ættu ríkin átta í ráðinu jafnan að hittast. Mér þættu hins vegar rök fyrir því að ríkin fimm (Bandaríkin, Kanada, Grænland/Danmörk, Noregur og Rússland) hittust, þar sem þau ættu land að Norður-Íshafi en ekki hin þrjú (Ísland, Svíþjóð og Finnland).
Ég hafði ekki komið í Háskólann á Akureyri eftir að hann flutti í fullbyggt skólahúsið. Það er glæsilegt og skapar skólastarfinu góða umgjörð.