11.11.2010

Fimmtudagur 11. 11. 10.

Össur Skarphéðinsson lætur eins og það sé stórfrétt að skjöl utanríkisráðuneytisins sýni að þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins hafi efast um lögmæti innrásarinnar í Írak, þar sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefði ekki lagt blessun sína yfir hana. Að lögfræðingar deildu um lögmætið er síður en svo nýmæli.  Þá er gefið til kynna að forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands hafi ekki vitað hvað fólst í samþykki þeirra við að Ísland yrði á lista yfir hinar viljugu þjóðir eins og þær voru nefndar. Skjöl utanríkisráðuneytisins sýna einmitt hvað í samþykkinu fólst, pólitískur stuðningur en ekki hernaðarlegur.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, sem hefur kynnt sér skjölin á vefsíðu utanríkisráðuneytisins segir að flest þeirra séu greinar eða frásagnir í fjölmiðlum. Þar komi ekkert fram sem sýni tengsl á milli ákvörðunar ráðherranna og dvalar varnarliðsins. Mátti skilja Guðna Th. að gögn um það kynnu að vera trúnaðarmál í utanríkisráðuneytinu eða embættismenn hefðu ekki skráð neitt um þennan þátt málsins. Á meðan skjölin eru ekki lögð fram er ekkert unnt að fullyrða að varnir Íslands hafi ráðið ákvörðun ráðherranna.

Ég sat ekki í ríkisstjórn í mars 2003 en var hins vegar í utanríkismálanefnd þar sem rætt var um þessi mál en þingmenn voru vissulega með hugann við annað, því að kosið var til þings vorið 2003 auk þess sem allt var á öðrum endanum á þessum tíma vegna umræðna um fund þeirra Davíðs Oddssonar og Hreins Loftssonar í London. Davíð sagði frá honum í útvarpsviðtali að morgni 3. mars 2003.