1.11.2010

Mánudagur 01. 11. 10.

Síðdegis hitti ég hóp Norðmanna sem dvelst hér á landi meðal annars til að kynnast viðhorfum til ESB-aðildar. Greinilegt er að þeir eru miklu þjálfaðri í að ræða  ESB-málefni en Íslendingar og vita betur um þá kosti sem fyrir hendi eru. Því miður verður að segja að umræður hér eru of einfeldningslegar um málið. Þetta gerist fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar og þó sérstaklega Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, sem komst að því fyrir 10 árum að Ísland ætti heima í ESB og vinnur að því öllum árum að láta þann draum sinn rætast.

Niðurstöður skoðanakönnunar í dag sýna að ESB-aðildarbröltið styrkir ríkisstjórnina ekki í sessi. Össur hefur skrifað hverja greinina eftir annað til stuðnings ESB-málstaðnum undanfarið og fékk meira að segja Evu Joly í lið með sér. Fylgi Samfylkingarinnar er minna nú en nokkru sinni í níu ár.

ESB-þráhyggja ríkisstjórnarinnar fælir örugglega einhverja frá stuðningi við hana. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að óvinsældirnar ráðist mest af því, að Jóhanna Sigurðardóttir ræður ekki við að gegna embætti forsætisráðherra. Rökstyð ég það í pistli, sem ég skrifaði í dag og má lesa hér.