13.11.2010

Laugardagur 13. 11. 10.

Les á visir.is að Jónína Benediktsdóttir segi mig hafa átt fund með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni árið 2005 og hún hafi tölvubréf frá mér því til staðfestingar. Hér fer eitthvað á milli mála. Ég man ekki eftir að hafa nokkru sinni heilsað Jóni Ásgeiri og því síður hitt hann að máli.

Þessi frétt á visir.is verður Sigurjóni M. Egilssyni tilefni til að hnýta í mig í þágu Gunnars Smára, bróður síns. Segist Sigurjón M. hafa orðið vitni að því í þinghúsinu fyrir tæpum tuttugu árum, að ég hafi sagt þingfréttaritara Morgunblaðsins hvaða fyrirsögn hann ætti að hafa á frétt um þingræðu eftir mig. Mér hafi orðið eitthvað um að Sigurjón M. yrði vitni að samtali mínu og þingfréttaritarans. Ætli það hafi ekki verið minn gamli vinur og herbergisfélagi af Morgunblaðinu  Stefán Friðbjarnarson. Fráleitt er líta þannig á að ég hafi sagt honum fyrir verkum.

Ég hef undanfarið lesið margt af því, sem þeir bræður Gunnar Smári og Sigurjón M. skrifuðu til varnar Baugsmönnum á tíma Baugsmálsins. Ég er viss um að mörgum verður eins og mér við þann lestur að undrast hve lágt þeir lögðust til að þjóna húsbændum sínum á þeim tíma.