15.11.2010

Mánudagur 15. 11. 10.

Vísir.is sýndi af sér afspyrnulélega blaðamennsku með því að túlka tölvubréf sem ég sendi Jónínu Benediktsdóttur árið 2005 á þann veg að ég hafi átt í einhverju leynimakki með Baugsmönnum á tíma Baugsmálsins. Gunnar Smári Egilsson sem starfaði nokkur ár í þjónustu Baugsmanna lagði þannig út af þessu bréfi að ég hefði rætt við Jón Ásgeir Jóhannesson um að hann seldi Baugsmiðlana og Baugsmálið hyrfi úr sögunni. Þetta er dæmalaust rugl. Vísir.is hefur leiðrétt frétt sína, enda byggðist hún á hugarburði þess sem skrifaði hana. Gunnar Smári segir hins vegar að engu skipti þótt fréttin hafi verið röng hann hafi samt rétt fyrir sér!

Jónína strikar út nafn þegar hún birtir tölvubréfið. Sá maður sem bauð mér með sér til Baugsmanna var Ragnar Tómasson hrl., sem stóð að því með Gunnari Smára sumarið 2002 að selja Baugsmönnum Fréttablaðið og tryggði þar með Gunnari Smára lykilstöðu í fjölmiðlaveldi Baugs.

Ragnar var einlægur í þeirri skoðun sinni að óheppilegt væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og Baug hins vegar að menn gætu ekki hist og rætt saman. Að Ragnar hafi boðið mér að kynnast starfsemi Baugs í því skyni að hafa áhrif á gang réttvísinnar er af og frá. Án þess að ég muni nákvæmlega hvenær ég sat þennan kynningarfund hjá Baugi finnst mér ekki ólíklegt að það hafi verið fyrir þingkosningarnar vorið 2003, þegar ég sat utan ríkisstjórnar.

Að ég hafi gert eitthvað á hlut Gunnars Smára er mér hulin ráðgáta. Ég sagði frá skiptum okkar hér á síðunni gær. Hann kýs að leggja þannig út af orðum mínum að ég sé að gera lítið úr honum. Við það fæ ég ekki ráðið. Hann ræður sjálfur sínum penna. Óskiljanlegt er hvers vegna hann kýs að hafa það sem sannara reynist að engu þegar hann leitast við að þvo af sér Baugsstimpilinn.