10.11.2010

Miðvikudagur 10. 11. 10.

Af yfirlýsingu Óðins Jónssonar, fréttastjóra RÚV má ráða að Þórhallur Jósepsson hefði ekki verið rekinn úr starfi fréttamanns ef hann hefði tekið viðtöl við mig sem fyrrverandi ráðherra og gefið út á bók af því að ég hef ekki verið í fréttum undanfarna mánuði. Þórhallur var hins vegar rekinn fyrir að skrá viðtöl við Árna M. Mathiesen af því að Árni var undir smásjá sem fyrrverandi fjármálaráðherra.

Fram kemur að Þórhallur sagði Óðni frá því að hann væri með viðtalsbók við fyrrverandi ráðherra í smíðum. Óðinn vissi hins vegar ekki hver ráðherrann var og brást ókvæða við fréttum um það. Félag fréttamanna á RÚV lætur sig málið ekki varða.

Allt er þetta til marks um sérkennilegt andrúmsloft meðal fréttamanna RÚV sem endurspeglast í efnistökum þeirra við meðferð sífellt fleiri mála. Um þessar mundir fylgist ég mest með því, hvernig fjallað er um ESB-aðildina. Þar er dreginn taumur aðildarsinna og sagt frá málum frá þeirra sjónarhóli og ESB.

Í dag bárust fréttir um að Láru Hönnu Einarsdóttur hefði verið sagt upp störfum sem pistlahöfundur á RÚV af því að hún bloggaði á Smuguna, vefsíðu vinstri-grænna. Ég hef aldrei hlustað á Láru Hönnu í útvarpinu og veit því ekki hvaða boðskap hún flutti. Brottrekstur hennar á ekki upphaf sitt í orðum hennar á RÚV heldur bloggi á vefsíðu vinstri-grænna.

Sá starfsmaður RÚV sem sætir mestri gagnrýni fyrir hlutdrægni er þáttastjórnandinn Egill Helgason. Fyrir utan að stjórna tveimur þáttum í sjónvarpi, þar sem annars vegar er fjallað um stjórnmál og hins vegar bókmenntir bloggar Egill í gríð og erg á launum frá vefsíðunni Eyjunni og veitist að mönnum vegna afstöðu þeirra og vegna þess hverjir þeir eru. Hlutdrægni Egils byggist ekki aðeins á málefnum heldur einnig hinu hvaða einstaklingur á í hlut.

Fréttastofa RÚV fer ekki aðeins í manngreinarálit þegar fréttamenn velja sér viðmælendur vegna bókarskrifa. Hún leggur einnig ólíkt mat á vefsíður. Egill heldur áfram að stjórna þáttum af því að hann bloggar á Eyjuna. Lára Hanna er rekin af því að hún bloggar á Smuguna.

Allar ákvarðanir stjórnenda RÚV um mannahald byggjast auðvitað á vilja þeirra og viðleitni til að verja trúverðugleika stofnunarinnar.