30.11.2010

Þriðjudagur 30. 11. 10.

Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri, gaf til kynna í samtali við fréttastofu RÚV, að úrslitin í stjórnlagaþingskosningunum væru einskonar 101-úrslit, það er bundin við elítu í Reykjavík sem sæti tíðum hjá Agli Helgasyni í sjónvarpssal. Ég get ekki dæmt um réttmæti útlistunarinnar, því að í mörg ár hef ég ekki horft á þætti Egils. Hitt er augljóst að blærinn á stjórnlagaþinghópnum markast í dag af því hvernig menn eins og Þorvaldur Gylfason og Eiríkur Bergmann Einarsson tala. Því má ekki gleyma, að þarna eru 23 þingmenn að auki og hver hefur sitt atkvæði sem er jafnt atkvæði þeirra Þorvaldar og Eiríks.

Vegna orða þeirra félaga er rétt að minna á, að hlutverk stjórnlagaþingsins er ráðgefandi. Það bindur ekki hendur alþingismanna á einn eða annan hátt. Það er til marks um oflæti, þegar gefið er til kynna að árétting á þessari staðreynd jafngildi því að gera lítið úr stjórnlagaþinginu.