Laugardagur 27. 11. 10.
Forvitnilegt hefur verið að fylgjast með því hvernig unnið er markvisst að því í fréttum RÚV að ýta undir kjörsóknina. Rætt er við fólk til að minna á að ekki sé of seint að skipta um skoðun og drífa sig á kjörstað, því að flestir þeir, sem við er rætt höfðu ekki ætlað sér að kjósa, en létu sig samt hafa það.
Skrýtin var fréttin um kjörsókn á Akureyri í 18.00 fréttum RÚV. Þar var sagt frá því, að kjörsókn hefði ekki verið minni þar í átta ár og maður fór óhjákvæmilega að velta fyrir sér hvers vegna kjörsókn hefði verið svona lítil þá. Þegar hlustað var á fréttina sjálfa kom í ljós, að sá sem við var rætt hafði aðeins komið að framkvæmd kosninga á Akureyri í átta ár. Nær hefði hefði verið að kynna fréttina á þann veg, að á Akureyri hefði viðmælandi RÚV aldrei kynnst svona lélegri kjörsókn.