4.11.2010

Fimmtudagur 04. 11. 10.

Hér er unnt

að nálgast þátt minn á ÍNN sem fyrst var sýndur 3. nóvember. Þar ræði ég við Guðrúnu Pétursdóttur, formann stjórnlaganefndar. um þjóðfundinn sem verður á laugardaginn og fleira sem tengist breytingu á stjórnarskránni.


Ég leit inn í Egilshöll síðdegis og sá hið nýja og glæsilega kvikmyndahús sem Árni Samúelsson var að opna þar, þrír salir Sam-bíóa sem rúma samtals um 900 manns. Í salnum sem ég skoðaði er rýmra á milli sæta en ég hef áður séð í slíkum sal.

Ég skrifaði í dag fréttaskýringu á Evrópuvaktina um viðleitni stuðningsmanna Jóhönnu Sigurðardóttur til að hjálpa henni og ríkisstjórn hennar úr öngstrætinu. Hve alvarleg staða hennar er orðin skýrðist svo betur í dag, þegar Jóhanna hvatti stjórnarandstöðuna til að flytja vantrausttillögu á sig og ríkisstjórnina. Að forsætisráðherra hrópi þannig á stjórnarandstöðuna er í raun ákall um, að stjórnarþingmenn sýni ríkisstjórninni stuðning. Að Jóhanna þurfi á honum að halda er enn til marks um veika stöðu ríkisstjórnarinnar.

Í Kastljósi kvöldsins var rætt við Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing, um utanþingsstjórn. Hann taldi réttilega ógjörlegt fyrir Ólaf Ragnar að skipa utanþingsstjórn. Hér situr engin ríkisstjórn deginum lengur en alþingi samþykkir.