7.11.2010

Sunnudagur 07. 11. 10.

Heimildarmyndin um Alþjóðabjörgunarsveitina í sjónvarpinu í kvöld staðfesti enn og aftur hve mikils virði sjálfboðaliðastarf þeirra er sem helga krafta sína verkefnum á þessu sviði.

Merkilegt er að sjá hve mikil áhersla er á sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar í niðurstöðum þjóðfundarins sem birtar voru í dag. Ef ekki er veitt heimild til framsals á fullveldi verður ekkert af aðild Íslands að Evrópusambandinu. Með áherslunni á fullveldi endurspeglar þjóðfundurinn viðhorfið sem birtist í niðurstöðum skoðanakannana þegar meirihlutinn lýsir andstöðu við ESB-aðild.

Í niðurstöðum þjóðfundarins kemur einnig fram að þátttakendur nefna sérstaklega samstarf Íslendinga með norðlægum þjóðum. Hefði áhugi fundarmanna beinst að aðild að Evrópusambandinu hefðu niðurstöður þeirra orðið aðrar en þær sem sagt er frá í fréttum.