21.11.2010

Sunnudagur 21. 11. 10.

Stundum er spurt að því blöðum, hvað menn telja bestu eða verstu fjárfestingu sína. Ég var á dögunum að sækja ábyrgðarbréf og bók í pósthúsið við Síðumúla. Þá mundi ég eftir að mig vantaði pappír í prentarann og velti fyrir mér, hvert ég ætti að aka til að ná í hann. Þegar ég hins vegar sá pappírspakka til sölu í pósthúsinu tók ég einn og keypti. Ég greiddi tæpar 1.800 kr. fyrir pakkann. Þótti mér það að vísu nokkuð hátt verð en úr því að ég sparaði mér ferð annað lét ég slag standa.

Ég sé á auglýsingu í Morgunblaðinu laugardaginn 20. nóvember, að ég hefði betur hugsað mig um tvisvar. Þar auglýsir N1 sama magn á pappír og ég keypti á 480 kr.  Líklega er þar svar N1 við ákvörðun Office1 um að selja bók Jónínu Ben. á hálfvirði með skilarétti.

Ég hafði rangt fyrir mér í gær, þegar ég taldi, að stjórnarflokkarnir stæðu saman að baki Jóhönnu Sigurðardóttur á leiðtogafundi NATO, þar sem hún samþykkti nýja grunnstefnu NATO og eldflaugavarnir.  Taldi ég víst að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, hefði komið að undirbúningi og stefnumörkun af Íslands hálfu enda hafði Össur Skarphéðinsson sagt á þingi að um náið samráð við utanríkismálanefnd hefði verið að ræða. Nú kemur í ljós að um bullandi ágreining er að ræða milli Össurar og Árna Þórs. Vill Árni Þór kalla þau Jóhönnu og Össur á teppið hjá utanríkismálanefnd og krefja þau svara um hvað í ósköpunum þau hafi verið að gera í Lissabon.

Það reyndist sem sagt ekki að ástæðulausu að ég velti fyrir mér hvort fjölmiðlamenn ætluðu ekki að fjalla um þau miklu þáttaskil í utanríkis- og öryggismálasögu þjóðarinnar að „hrein“ vinstri stjórn styddi nýja grunnstefnu NATO og eldflaugavarnir.

Sú furðulega skýring Össurar að nú sé í lagi að styðja eldflaugavarnir í þágu NATO-ríkjanna af því að Rússar séu ekki á móti þeim dugar honum ekki til að hafa Árna Þór góðan.