17.11.2010

Miðvikudagur 17. 11. 10.

Heimferðin frá New York gekk vel með Icelandair og lentum við rúmlega 6 í morgun eftir 4.45 tíma flug. Ég hef ekki flogið frá Bandaríkjunum síðan tekið var að losa farþega til Íslands við öryggisskoðun í Leifsstöð með því að aka þeim í rútu frá passaskoðun inn að töskubeltunum. Þetta er einföld lausn hjá flugstöðinni og dregur úr kvörtunum, því að mörgum var misboðið með nýrri öryggisskoðun við komu til landsins. Hún býður hins vegar þeirra farþega sem halda áfram með flugi inn á Schengen-svæðið.

Síðdegis tók ég upp samtal í þátt minn á ÍNN við Björgvin G. Sigurssðon, alþingismann og fyrrverandi ráðherra, vegna bókar hans, Storms, þar sem hann lýsir reynslu sinni vegna bankahrunsins og eftirleik þess.

Björgvin G. er einlægur í lýsingum sínum og honum tekst vel að draga mynd af hinni mögnuðu atburðarás frá sínum sjónarhóli. Ég er ekki sammála honum um allt eins og fram kemur í samtali okkar.