14.11.2010

Sunnudagur 14. 11. 10.

Hlustuðum á Anne-Sophie Mutter, fiðluleikara, Yuri Bashmet, lágfiðluleikara, og Lynn Harrell, sellóleikara, flytja þrjú tríó eftir Beethoven í Avery Fisher Hall í Lincoln Center. Í einu orði stórbrotnir tónleikar sem vöktu mikla hrifningu gesta í þéttsetnum salnum.

Veðrið í New York hefur verið einstaklega gott dagana sem við höfum dvalist hér. Er ævintýri líkast að fara um Manhattan og kynnast margbreytileika borgarinnar eftir mismunandi hlutum hennar.

Gunnar Smári Egilsson notar vefsíðu Egils Helgasonar til að birta ósannindi um samskipti mín og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þegar ég var menntamálaráðherra kom Gunnar Smári einu sinni á minn fund. Hann gaf þá út blað sem hét Fjölnir. Átti hann í fjárhagserfiðleikum. Mig minnir að ég hafi leitast við að létta eitthvað undir með honum með styrk af ráðstöfunarfé ráðherra. Þetta var áður en hann fór að ráðstafa sjóðum Baugsmanna. Næst þegar ég hitti Gunnar Smára var hann rótari eða ráðstefnustjóri á fundi hjá SÁÁ í Von við Efstaleiti. Það var eftir störf hans hjá Baugsmönnum. Þau hafa ekki farið vel með hann. Skrýtið hvað hann þarf að kasta miklum skít í aðra við að hreinsa sig af þeim.