18.11.2010

Fimmtudagur 18. 11. 10.

Matthew Lynn, sem er dálka- og bókahöfundur um fjármál, skrifar grein í nýjasta hefti breska vikuritsins The Spectator þar sem hann ræðir um stöðu Íslands eftir bankahrunið. Hann segir að íslenska ríkið hafi ekki haft efni á því að dæla peningum í bankana haustið 2008 til að halda þeim gangandi. Þess í stað hafi ríkið slegið eign sinni á þá, innlendir innlánseigendur hafi verið verndaðir en erlendir lánadrottnar hafi verið látnir sigla sinn sjó. Allt öðru vísi hafi verið brugðist við í Bretlandi, Bandaríkjunum og Írlandi, þar sem ríkið hafi dælt milljörðum af skattfé almennings inn í fjármálastofnanir.

Lynn segir að íslenska aðferðin hafi ekki reynst sem verst. Vextir hafi lækkað og krónan sé tekin að styrkjast að nýju, hún hafi hækkað um 19% á þessu ári gagnvart evru. Í raun veki reynsla Íslendinga ógnvekjandi spurningu fyrir aðrar þróaðar þjóðir. Ef til vill hefðu þær ekki þurft að dæla svo háum fjárhæðum í banka sína. Ef til vill hefðu þær átt að láta þá fara á hausinn?

Hann telur að Íslendingar standi að mörgu leyti betur að vígi en Írar og Grikkir. Þeir séu jafnvel í betri stöðu en Bretar sem viti ekki hvað Royal Bank of Scotland eða Loyds-HBOS muni kosta þá að lokum. Íslendingar hafi sýnt að ekki sé endilega að dæla peningum inn í banka í vanda. Grein sinni lýkur hann á því að fylgdu Bretar í fótspor Íslendinga kynni efnahagur þeirra að lagast á tiltölulega skömmum tíma.

Hér má sjá greinina eftir Matthew Lynn í heild.