Laugardagur 20. 11. 10.
Flokksráð vinstri-grænna samþykkti í dag moðsuðu um ESB-mál til þess að halda flokki sínum saman og tryggja að hann geti átt samstarf við Samfylkinguna í ríkisstjórn. Ljóst er að ESB-bröltinu verður ekki hætt á meðan þessi ríkisstjórn situr með Steingrím J. innan borðs. Annað hvort verður að ýta honum til hliðar eða sprengja ríkisstjórnina.
Merkilegt er að enginn í flokksráði vinstri-grænna virðist hafa vakið máls því að sama dag og ráðið sat á rökstólum í Hagaskólanum í Reykjavík og lýsti ofurtrú sinni á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sat sjálf Jóhanna leiðtogafund NATO í Lissabon og samþykkti fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar nýja grunnstefnu NATO og áform um eldflaugavarnir - í grunnstefnunni felst meðal annars stuðningur við kjarnorkuvopn undir forsjá NATO.
Kannski hefur vinstri-grænum þótt best að þegja um NATO og nýja stefnu þess með samþykki ríkisstjórnarinnar eins og þeir þögðu um Icesave-samninga Steingríms J. og Svavars Gestssonar bæði á þessum flokksráðsfundi og þeim sem efnt var til í janúar.
Ég skrifaði um NATO fundinn hér á síðuna í dag og einnig á Evrópuvaktina eins og hér má sjá.