5.11.2010

Föstudagur 05. 11. 10.

Í morgun sat ég strandríkjaráðstefnu Heimssýnar og flutti þar erindi sem hér birtist.

Mér finnst broslegt að fylgjast með því, hvernig leitast er við að mála Heimssýn út í horn sem félagsskap þröngsýnna afturhaldsmanna sem óttist allar umræður um nýja utanríkisstefnu. Ég fullyrði að það er mun frjórri hugsun í umræðum um utanríkismál og framtíðarstöðu Íslands í Heimssýn en meðal þeirra sem sjá þá leið eina fyrir Ísland að gerast aðili að Evrópusambandinu.

Með því að sjá ekki annað en aðild Íslands að ESB eru menn í raun að loka á allar umræður um beina hlutdeild Íslendinga sjálfra í mótun samfélags strandþjóðanna við N-Atlantshaf. Allar leiðir íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna munu liggja til Brussel og þaðan koma síðan embættismenn sem tala fyrir mun Íslendinga gagnvart þeim, sem vilja ræða við gæslumenn hagsmuna Íslands, gæsla strandríkisréttarins flyst frá Reykjavík til Brussel, eins og ég lýsti í erindinu á ráðstefnu Heimssýnar.

Þetta er ótrúlega óspennandi framtíð fyrir þá, sem fara munu með stjórn íslenskra málefna.