24.11.2010

Miðvikudagur 14. 11. 10.

Þegar sagt er að ljúka verði viðræðum við ESB til að unnt sé að bera niðurstöðuna undir Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu er jafnframt sagt við ESB-viðmælendurnar að íslensk stjórnvöld séu til þess búin að slá svo mikið af kröfum sínum, að draga megi upp eitthvert sameiginlegt skjal. Þess vegna er íslensk uppgjafarstefna í ESB-viðræðunum eðlislægur hluti af kröfunni um að „málið verði klárað“ og gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Eru þeir sem þannig tala til dæmis reiðubúnir til að færa strandríkisrétt Íslands til ESB?

Í umræðum um fjárgreiðslur til meðferðarheimilisins Árbótar í Kastljósi í kvöld var hlaupið yfir valdníðslu Steingríms J. Sigfússonar þegar hann sagði í tölvupósti að hann mundi bregða fæti fyrir fjárveitingar í þágu barnaverndarstofu ef ekki yrði farið að kröfum hans varðandi Árbót. Þá var þess einnig látið ógetið að hann sakaði barnaverndarstofu um að leka einkapósti sínum þegar stofan gerði ekki annað en bregðast við óskum fjölmiðils samkvæmt upplýsingalögum.