23.11.2010

Þriðjudagur 23. 11. 10.

Flutti erindi í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins um ESB-málefni og öryggismál.

Ritaði í morgun leiðara á Evrópuvaktina um evru-vandann og Íra. Það er óskiljanlegt að hér á landi skuli ESB-aðildarsinnar láta eins og Írum sé sérstakur greiði gerður með því að knýja þá til að þiggja alþjóðlega fjárhagsaðstoð með ströngum skilyrðum til að bjarga evrunni.

Ef þetta er svona mikið fagnaðarefni, hvers vegna hlaupa Írar ekki fagnandi út á götur? Hvers vegna hefur írska stjórnin þá sprungið vegna málsins? Hvers vegna er líklegt að Fianna Fáil flokkurinn, stjórnarflokkurinn, sem haft hefur undirtökin í írskum stjórnmálum síðan 1930 berjist fyrir lífi sínu í næstu þingkosningum?

Allt tal um að nú geti Írar prísað sig sæla fyrir að hafa evruna og njóta skjóls frá Seðlabanka Evrópu hljómar eins og hrein öfugmæli í eyrum Íra.

Ég sá ekki betur en Steingrímur J. hlypi niður tröppurnar við stjórnarráðshúsið eftir ríkisstjórnarfund í morgun í stað þess að sperra sig fyrir framan hljóðnema ljósvakamiðlanna. Nú vill hann ekki láta spyrja sig, af því að hann veit upp á sig skömmina vegna ráðstöfunar á fé til meðferðarheimilis í kjördæmi hans, þegar hann sýndi þá fáheyrðu stjórnsýslutakta að hóta að taka fjárhagsleg málefni barnaverndarstofu í gislingu nema farið yrði að kröfum hans, og beit síðan hausinn að skömminni og réðst á stjórnendur stofunnar fyrir að fara að upplýsingalögum.

Þessir stjórnarhættir hjá fjármálaráðherra eru sem betur fer einsdæmi en endurspegla valdhroka Steingríms J. sem magnast jafnt og þétt. Engir geta sett honum skorður nema hans eigin flokksmenn en þá beitir hann líklega svipuðu bolabrögðum og birtust í tölvubréfinu vegna meðferðarheimilisins.