8.11.2010

Mánudagur 08. 11. 10.

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, sagði ranglega í svari á alþingi í dag að ég hefði ráðið danska arkitekta til að teikna fangelsi á Hólmsheiði við Reykjavík. Nokkru seinna leiðrétti hann svar sitt.

Ég hafði ekki ráðið neina arkitekta, danska eða íslenska, til að teikna þetta fangelsi Á hinn bóginn hafði verið farið í smiðju til danskra arkitekta sem eru sérhæfðir í gerð fangelsa, enda eru nokkur nýleg í Danmörku, við frumathugun á móttökuhúsi á Litla Hrauni í ráðherratíð minni. Þá hafði verið leitað til þeirra um ráðgjöf vegna nýs fangelsis í Reykjavík í ráðherratíð Rögnu Árnadóttur. Allt þetta mál er í raun byggt á misskilningi, ef talið er, að af minni hálfu eða Rögnu hafi verið unnið að því að halda íslenskum arkitektum frá því að teikna nýtt fangelsi. Málið snýst um að fá sem besta ráðgjöf við gerð útboða.

Nú er að sjá, hvort tekst að finna lóð undir nýja fangelsið, þegar á reynir. Ég var kominn á þá skoðun að reisa ætti fangelsi og lögreglustöð saman. Taldi ég besta staðinn vera við Bústaðaveg, þar sem veðurstofan er og yfirgefin stjórnstöð raforkukerfisins.

Í magar áratugi hefur legið fyrir, að bandaríska sendiráðið gerði sérstakar ráðstafanir til að gæta eigin öryggis. Hér hafa verið og eru kannski enn „marines“ til sendiráðsgæslu. Þetta á ekkert skylt við „njósnir“.  Njósnir í þágu erlendra ríkja eru ólögmætar hér á landi. Á meðan íslensk yfirvöld skortir forvirkar rannsóknarheimildir eru þau ekki í stakk búinn til að snúast gegn njósnum af þeim þunga sem kann að vera nauðsynlegur.

Ögmundur Jónasson hefur nú beðið ríkislögreglustjóra um öryggisráðstafanir á vegum bandaríska sendiráðsins. Spennandi verður að fylgjast með því hvort afstaða Ögmundar til forvirkra rannsóknarheimilda breytist vegna þessarar skýrslugerðar.