29.11.2010

Mánudagur 29. 11. 10.

Undarlegt er að fylgjast með því, hve embættismönnum utanríkisráðuneytisins og öðrum málsvörum aðildar Íslands að ESB er mikið í mun að ná sér niðri á forystumönnum Bændasamtaka Íslands vegna andstöðu þeirra og bænda við ESB-aðild. Formaður viðræðunefndar Íslands við ESB vék úr vegi í ESB-viðtali við Fréttablaðið fyrir helgi til að skjóta á bændur eins og lýst er á Evrópuvaktinni.

Danilo Turk, forseti Slóveníu, sat fyrir svörum í Hardtalk í BBC í kvöld. Hann á greinilega í vök að verjast heima fyrir við að verja aðild Slóveníu að evru-svæðinu. Þegar Slóvenar tóku upp evru fyrir þremur árum, töldu þeir sig á leið inn í efnahagslegt öryggi. Í stað þess sitja þeir nú uppi með háar greiðslur til að losa Grikkjum og Írum undan þungum ávöxtunarkröfum til bjargar evrunni. Slóveníuforseti tók að sjálfsögðu afstöðu með ESB og ákvörðunum innan þess að kröfu Þjóðverja. Hann huggaði sig við að ESB hefði reynslu af því að breyta „crisis into opportunity“ en með slíkum frösum er almenningur í ESB-löndunum knúinn til að sætta sig við sífellt meiri miðstjórn.