1.4.2011

Föstudagur 01. 04. 11.

Hélt í Skálholt síðdegis með Gunnari Eyjólfssyni, þar sem við verðum með qi gong námskeið fram á sunnudag. Það er vor í lofti á hinum helga stað.

Mér finnst ótrúlegt að lesa menn sem vilja láta taka mark á sér í viðskiptalífinu lýsa yfir því að hjólin fari að snúast ef Icesave III hlýtur samþykki þjóðarinnar. Við öllum blasir að þetta er argasta blekking. Ríkisstjórnin og stefna hennar eða réttara sagt stefnuleysi stendur í vegi fyrir því að efnahagur og atvinnulíf dafni. Vísasti vegurinn til að lengja setu þeirra Jóhönnu og Steingríms J. í ráðherrastólunum er að segja já við Icesave.

Með því að segja já við Icesave er löppunum ekki aðeins kippt undan heilbrigðri bankastarfsemi og ábyrgð bankastjórnenda gerð að engu heldur einnig lagður steinn í götu framfara með opnum og heilbrigðum stjórnarháttum.