29.4.2011

Föstudagur 29. 04. 11

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af því að aðstoðarseðlabankastjóri varð að skrifa undir bréf með staðgengli forstöðumanni gjaldeyriseftirlitsins til að Samherji og sölufyrirtæki hans geti notað eigin gjaldeyri til að kosta ferð starfsmanna á sjávarútvegssýningu í Brussel.

Þetta dæmi sýnir hvert stefnir hér á landi undir fyrstu tæru vinstri stjórninni og seðlabankastjóra sem vill sitja yfir hlut einstaklinga og fyrirtækja í krafti gjaldeyrishafta. Hið undarlegasta við þessa þróun er að stjórnarandstaðan nær ekki þeim tökum á ríkisstjórninni og stjórnarháttum hennar sem duga til að sýna í eitt skipti fyrir öll hve illa hún stendur að málum.

Ég hef áður sagt að í 20 ár hafi Íslendingar ekki kynnst stjórnarháttum eins og þeim sem nú ríkja í landinu. Þetta á ekki aðeins við um fjölmiðlamenn heldur einnig aðila vinnumarkaðarins og alla aðra sem eiga samskipti við stjórnvöld. Gjaldeyrisreglurnar og framkvæmd seðlabankans á þeim er aðeins eitt einkenna hins sýkta stjórnarfars.

Hið sérstæða við þetta ástand núna er að ríkisstjórninni hefur tekist að viðhalda þeirri blekkingu að yfir stjórnarháttum sé yfirbragð jákvæðra umbóta vegna bankahrunsins og skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Málum er alls ekki þannig háttað, stjórnarháttum hefur hrakað, stækkun ráðuneyta er misráðin og breyting á lögum um stjórnarráðið bætir ekki stjórnsýsluna. Stjórnlagaráð verður til vegna sniðgöngu við ákvörðun hæstaréttar.