8.4.2011

Föstudagur 08. 04. 11.

Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi í viðræðum við Sigmund Davíð Gunnlaugsson um Icesave: „Menn eiga að reyna að verða menn orða sinna sé þess nokkur kostur“, eftir að hann lét orðin falla, minntist ég þess hve oft Steingrímur J. hefur gengið á bak orða sinna til að halda í ráðherrastólinn. Það er ekki að marka eitt orð sem maðurinn segir, þegar völd hans eru annars vegar. Hann taldi til dæmis rangt hjá Sigmundi Davíð að yrði höfðað mál til greiðslu Icesave-skuldarinnar yrði hún greidd í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðli.

Ósannindaröð Icesave-yfirlýsinga Steingríms J. hlýtur einhver að birta, þegar fram líða stundir.

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af grein Evu Joly um Icesave-málið í Morgunblaðinu í dag. Framlag hennar til umræðna um Icesave-málið byggist á meiri víðsýni og þekkingu en þeirra hér á landi sem láta eins og við munum afla okkur vinsælda og virðingar með því að leggjast í duftið og láta traðka á okkur í stað þess að gæta réttar okkar.

Hin síðari ári hefur alþjóðasamfélagið ákveðið að virkja dómstóla meira en áður til að fjalla um mál þeirra sem níðast á samborgurum sínum í krafti valds síns. Í Haag eru fyrrverandi þjóðhöfðingjar eða stjórnmálaleiðtogar kallaðir fyrir alþjóðlegan sakadóm. Í viðkomandi löndum eru alltaf einhverjir sem hafna slíkum málaferlum og reyna að höfða til þjóðernis-tilfinninga málstað sínum til framdráttar. Það eigi að sporna gegn málaferlum af því að þau spilli áliti viðkomandi þjóða. Sem betur fer eru slíkar kröfur um skálaskjól að engu hafðar.

Fráleitt er að láta eins og málaferli vegna Icesave fyrir EFTA-dómstólnum sé einhver blettur á heiðri Íslendinga. Ég átta mig ekki á því hvaða útlendinga þeir Íslendingar umgangast sem tala á þann veg til þjóðar sinnar. Almenna reglan er að menn öðlast virðingu fyrir að standa á rétti sínum. Á hún ekki við í Icesave-málinu?

Hér má sjá viðtal mitt við Reimar Pétursson hrl. sem sýnt var á ÍNN 6. apríl. Við ræðum dómstólaleiðina og hinn góða málstað Íslands í Icesave-málinu.