20.4.2011

Miðvikudagur 20. 04. 11.

Í dag ræddi ég við Sigríði Andersen, héraðsdómslögmann, í þætti mínum á ÍNN um Icesave-kosningarnar en hún var í forystu fyrir hópnum Advice sem sem barðist gegn Icesave III með glæsilegum árangri. Við minnumst meðal annars á hræðsluáróður já-manna sem byggðist mjög á því að með því að segja nei yrði lánshæfismat Íslands lækkað.

Eftir að við tókum upp þáttinn bárust fréttir um að matsfyrirtækið Moody's  hefði staðfest óbreytt lánshæfismat íslenska ríkisins, Baa3. Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna hafði Moody‘s lagst á sveif með já-mönnum og sagði að hafnaði þjóðin Icesave-lögunum hefði það að líkindum neikvæð áhrif á lánshæfismatið.

Rökstuðningur Moody's fyrir því að halda lánshæfismatinu óbreyttu er þríþættur: 1. Kosningarnar hafi ekki ekki áhrif á útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans. 2. Moody's telur að samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins muni halda. 3. Yfirlýsingar nágrannalanda gefi til kynna að lánasamkomulag verði virt.

Um síðustu helgi var látið eins og Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason hefðu lagt sig fram um það í Washington að hafa áhrif á matsfyrirtækin og hindra lækkun á lánshæfismatinu.  Taki þessi fyrirtæki mark á því sem ráðherrar í ríkisstjórninni segja, gera þau ekki miklar kröfur til heimildarmanna sinna. Ætli það sé ekki einsdæmi að ríkisstjórn sitji eins og ekkert hafi í skorist, þótt lögum hennar um lykilmál hafi verið hafnað tvisvar sinnum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það væri forvitnilegt að heyra álit matsfyrirtækja á því.