11.4.2011

Mánudagur 11. 04. 11.

Össur Skarphéðinsson hafði í dag mikilvægan fyrirvara í svari sínu á alþingi, þegar hann svaraði spurningu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingflokksformanns sjálfstæðismanna, um Icesave og ESB-aðildarviðræðurnar. Hann sagði að ekki væri um „formleg“ áhrif af Icesave að ræða.  Svarið var í takt við annað frá utanríkisráðuneytinu um ESB-viðræðurnar, að formlega séu þær í óbreyttum farvegi, þótt efnislega hlaðist upp óleyst og erfið mál.

Hvarvetna erlendis, þar sem minnst er á Icesave í tengslum við ESB-aðildarviðræður okkar Íslendinga er tekið fram að Bretar og Hollendingar hafi neitunarvald og geti hvenær sem er stöðvað viðræðurnar með beitingu þess. Að ekki skyldi minnst á þetta atriði í þingumræðunum er undarlegt.

Framkvæmdastjórn ESB stendur að viðræðunum vegna óska Íslendinga og heldur þeim áfram á meðan hún hefur pólitísk fyrirmæli þess efnis. Þetta felst í yfirlýsingu tveggja framkvæmdastjórnarmanna ESB sem birt var í dag. Þeir geta ekki stöðvað viðræður við Ísland nema að ósk einhvers ESB-ríkis eða ráðherraráðs ESB.

Blekkingartal stuðningsmanna Icesave byggðist á því fyrir helgi að í dag mundi himinninn brotna yfir Íslandi eða réttara sagt lánstraust þjóðarinnar hverfa ef sagt yrði nei við hinum löglausu kröfum. Ekkert slíkt hefur gerst. Af fréttum RÚV má helst ráða að svo sé vegna þess að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, fór á fund í Stjórnarráðshúsinu og ræddi við Moody's matsfyrirtækið. Þetta er sami Már og flutti heimslitaboðskap á ársfundi Seðlabanka Íslands í síðustu viku til að hræða fólk til stuðnings við Icesave.

Hvenær skyldi renna upp fyrir fréttamönnum RÚV að vandamálið er ríkisstjórnin og þeir sem með henni spila en ekki Icesave, þegar hugað er að samskiptum við Ísland?